Sum eigum við erfitt með að muna nöfn á nýju fólki en til eru einfaldar aðferðir sem hjálpa við þetta. Til dæmis er gott að nota ímyndunaraflið, sjónminnið og eldri minningar.
Takist þér þetta máttu eiga von á meiri félagslegum vinsældum en áður en eins og samskiptafrömuðurinn Dale Carnegie sagði eru fá orð jafn kær manneskju og hennar eigið nafn og ekkert umræðuefni finnst fólki skemmtilegra en einmitt það sjálft.
HVERNIG MUNA SKAL NÖFN
- Um leið og þú hefur verið kynnt/ur fyrir nýrri manneskju skaltu endurtaka nafnið. „Klara. Gaman að kynnast þér Klara.“
- Fljótlega í samtalinu skaltu orða spurningu þannig að nafnið komi fyrir: „Hvar átt þú heima í bænum Klara?“
- Ef þú þekkir aðra manneskju með sama nafni skaltu gera tengingu á milli þeirra tveggja. Sjáðu fyrir þér báðar Klörurnar saman í kaffi.
- Tengdu nafnið við sagnorð eða lýsingarorð. Klara minnir til dæmis á orðið klára. Sjáðu Klöru fyrir þér að klára glas af vatni eða á hestbaki (klár).
- Ef Klara á mann sem heitir Pétur og Pétur hefur gaman af golfi skaltu prófa að sjá Klöru og Pétur Pan (eða einhvern annan Pétur sem er þér minnisstæður) saman að ríða klár á golfvelli. Þannig geturðu hugsanlega líka munað nafnið á manninum hennar og hverju þau hafa gaman af. Næst þegar þú rekst á Klöru getur þú heilsað upp á hana með nafni og spurt hvernig Pétri gangi í golfinu. Samstundis hafið þið Klara náð betri tengingu og óafvitandi finnst henni meira í þig varið fyrir að muna eftir sér.
Þessar aðferðir gætu virst örlítið súrrealískar en þær eru margprófaðar og reyndar af sérfræðingum í minnistækni og reynast einkar vel sé rétt að þeim staðið.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.