Kunningi minn segir að sjórinn hafi sömu áhrif á fólk og fíkniefni – við verðum háð honum.
Einu sinni bjó ég sjálf í húsi við sjó og ég hef sjaldan horft eins mikið á sjóinn og þá. Ég horfði á hann þegar ég vaknaði og aftur þegar ég kom heim úr vinnunni. Á kvöldin stillti ég sjónvarpinu þannig upp að ég gæti horft á bíómyndir með sjóinn í baksýn auk þess sem ég hafði alltaf svalahurðina opna út á sjóinn til að magna áhrifin, lyktina og niðinn.
Þetta er súrrealískt að vilja vera endalaust að horfa á sjóinn; þetta er líka tímabilið sem ég fór helst aldrei neitt út á kvöldin, sjórinn togaði sífellt í mig og hélt mér heima.
Sjómenn elska sjóinn og þola illa við í landi. Það hafa verið samin mörg dægurlög um sjómenn sem þrá sjóinn, við þekkjum þau öll.
Það hefur líka verið fjallað um þetta í kvikmyndum, hver man til dæmis ekki eftir myndinni Big Blue (1988), þar sem sjórinn nær heljartaki og ruglar kafara þannig í ríminu að hann yfirgefur konuna sem hann elskar til að deyja í sjónum þegar hann telur sig vera höfrung.
Annað gott dæmi er sagan af Litlu hafmeyjunni; ég hef oft pælt í því hvaða skilaboð séu fólgin í málleysi hafmeyjunnar. Af hverju missir hún málið þegar hún fórnar sporðinum fyrir fæturnar? Var það refsing fyrir að yfirgefa sjóinn?
Og svo aftur í raunveruleikann hér í Reykjavík. Vinkona mín hefur nokkuð lengi haft augastað á myndarlegum útgerðarmanni… og einhleypum. Málið er að maðurinn er aldrei á neinum stöðum, hann sækir ekki sýningar, boð eða skemmtistaðina.
Það kemur ekki á óvart að maðurinn býr samkvæmt þjóðskrá við sjávarsíðuna og samkævmt mínum kokkabókum er hann öll kvöld heima að horfa á sjóinn. Ég hef ráðlagt vinkonunni að kasta fyrir makríl í fjörunnni fyrir utan gluggann hjá honum. Standa þar með stöngina og bíða. Það er að segja ef hún hefur áhuga á manni sem er samkvæmt öllum kenningum orðinn ruglaður af sjónum, háður honum eins og fíkill, þá ætti þetta ráð kannski að duga.
Það sakar ekki að prófa og ef það gefst illa má alltaf segja eins og í spilinu þegar vitlaust spil er dregið:
“Nei, veiddu aftur!!”
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.