Einkamál.is:
Mér datt í hug að leita að hinum eina sanna á einkamálavefnum þar sem prinsinn hafði enn ekki ratað á fjörur mínar.
Að svo búnu smellti ég inn skemmtilegri lýsingu á sjálfri mér og beið átekta eftir að haft yrði samband. Þeir létu ekki bíða eftir sér kavalerarnir en um tíma virtist ég vera ljósið í myrkrinu hjá nákvæmlega 2038 karlmönnum! Þessi tala hressti mig virkilega við þegar ég fór út á næturlífið og kom tómhent heim, eða kom heim úr vinnunni eftir erfiðan dag. Þá voru alltaf þessir 2038 myndarlegu menn sem biðu mín í tölvunni heima í stofu – vinsældirnar hresstu mig við.
Við tóku nokkrar vikur þar sem ég sat sem límd við tölvuna á kvöldin. Skrifandi mönnum sem voru fullkomnlega dularfullir, algerlega huldir fyrir augum mínum. Ég gat ekki séð þá með berum augum og þaðan af síður fundið lyktina af þeim sem ég held að séu tvö mikilvæg atriði í makavali en áður en að leikslokum kom ákvað ég að hitta þrjá þessara manna.
Allt brilljíant menn en allt kom fyrir ekki. Mestu vonbrigðin voru að menn sem höfðu lýst sér sem mjög myndarlegum voru það alls ekki í mínum augum. Það vantaði ýmislegt þar upp á, loks svo mikið að ég skráði mig út.
Síðan hef ég sjálf séð ljósið, geng ekki lengur í myrkri. Sættist við að vera “Fabulous by nature & single by choise.”
Fabulous konan ákvað svo að taka fram golfkylfurnar og fara að æfa sveifluna en þessari single til óvæntrar ánægju hef ég séð að allir sætu strákarnir eru líka á golfvellinum.
Svo stelpur, sleppið einkamál.is og börunum, skráið ykkur frekar í golf!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.