Act Alone hátíðin í sjávarþorpinu Suðureyri vestur á fjörðum er uppáhalds hátíðin mín sem haldin er hérlendis en hún opnar nú á miðvikudag.
Um er að ræða einleikjahátíð þar sem aðeins einn stendur á sviði hverju sinni en þá gildir einu hvort það er stand up grínisti, leikari, söngvari, töframaður, dansari eða annað… það er bara einn á sviðinu í senn.
Ég var þarna alla síðustu hátíð og stefni á að komast núna en allir viðburðir helgarinnar eru ókeypis og öllum opnir.
Meðal einleikja sem verða sýndir í ár eru Eldklerkurinn með Pétri Eggerz, Grande með Hirti Jóhanni Jónssyni, Sveinsstykki Þorvaldar Þorsteinssonar í flutningi Arnars Jónssonar og barnaleikritið Pétur og úlfinn með Bernd Ogrodnik.
Þó ekki væri nema bara til að sjá Sveinsstykki Þorvaldar Þorsteins er full ástæða að leggja á sig vesturför. Þetta var tvímælalaust besta stykkið sem undirrituð sá á síðasta leikári. Algjörlega magnað verk og flutningur Arnars Jónssonar óaðfinnanlegur. Þetta er líklegast eina tækifærið sem þú hefur til að sjá verkið á næstunni sem fór fyrir fullu Þjóðleikhúsi í þessi fáu skipti sem það var sýnt á síðasta ári.
En það eru ekki bara fullorðnir sem fá eitthvað fyrir sinn snúð á Act Alone, börnin fá líka sitt því þeirra helsta hetja, Villi Vísindamaður verður með námskeið fyrir krakka á öllum aldri og meira til.
Af tónlistarmönnum sem koma í ár má nefna Egil Ólafsson og gítarsnillingurinn Björn Thoroddsen mætir líka.
Það er líka stemmningin sem er svo dásamleg á þessari hátíð en allt litla þorpið er undirlagt í listamönnum og listunnendum og hægt að fara á milli húsa og viðburða allann daginn til að sjá og upplifa eitthvað sem gleður og göfgar.
Fulla dagskrá má lesa hér en eins og sjá má þá er þetta seðjandi dagskrá fyrir hungraða menningarúlfa. HÉR er Act Alone á Facebook.
Act alone var fyrst haldin árið 2004 og hefur verið haldin árlega síðan. Alls hafa verið sýndir yfir 100 verk á hátíðinni og ávallt hefur aðgangur verið ókeypis að öllum viðburðum.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.