Af hverju virðist loða við sumar konur að vera jafnan einhleypar á meðan aðrar eru nánast endalaust í samböndum?
Ég var að taka til í geymslunni og fann frábæra bók um Feng Shui en þar var einmitt kafli um sambönd.
Mér fannst ég hafa fundið gull enda svaraði bókin ýmsum spurningum mínum, m.a. af hverju svona fabulous kona eins og ég er enn einhleyp.
Í fljótu bragði verður sá sem vill finna sér maka að endurspegla þá ósk í gegnum hlutina á heimili sínu. Til dæmis er gott að hafa mikið af hlutum í pörum þar sem það er rómantískt tákn. Ef það eru myndir á veggjunum er mikilvægt að þær séu einnig í þessari gullnu tvennu.
Eins er alveg bannað að einhleyp kona sé með myndir af konum á veggjunum eða mikið af einmana sálum á myndunum – frekar ætti hún að hengja upp mynd af flottum karlmanni – nöktum etv!! Eða pari í kossaflensi.
Á sama hátt ætti piparsveinninn að hengja upp myndir af konum til að fá inn kvenlega orku. Svona byggja Feng Shui fræðin á jafnvæginu milli ying og yang eða þess karllega og kvenlega. Eftir lesturinn fór ég sem stormsveipur um íbúðina mína.
Mér til mikillar furðu fundust alls sex myndir af einmana konum á veggjunum!! Þessu var snarlega skipt út og nú eru hér hlutir í pörum. Eins fékk ég æðislega mynd eftir Nínu Björk Hlöðversdóttur ljósmyndara af fallegum karlmanni og hengdi upp á besta stað!
Nú er bara að bíða og sjá hvað kemur á öngulinn í framhaldinu.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.