Ég las bók fyrir nokkrum árum sem hafði talsverð áhrif á mig, bæði út frá femínískum og útlitslegum sjónarmiðum.
Bókin heitir á frummálinu “How to be attractive” og kom fyrst út árið 1941, en fjórum árum síðar var hún þýdd og útgefin hérlendis og fékk nafnið Aðlaðandi er konan ánægð. Höfundur þessarar góðu bókar var Joan Benett, þá fræg og vinsæl leikkona um allan heim.
Feminisminn byrjar í innganginum þegar Joan talar beint við lesendur og hvetur konur til að draga nú ekkert úr kvenlegheitum þó að þær séu farnar á vinnumarkaðinn.
Hún talar um að með því að fara í stríð, og neyða með því heimavinnandi konur út á vinnumarkaðinn, mættu strákarnir nú ekki fara að taka það af okkur líka að vera fínar og puntaðar. Það væri ekki það sama að fara út á vinnumarkað og breytast í karl. Gott mál að gerast einkaritarar og hvaðeina en Joan vildi að konur stæðu á pjattrófurétti sínum þrátt fyrir það. Halda í kvenlegu gildin en ofurseljast ekki þessum karllægu með því að hætta að punta sig og byrja að ganga bara í buxum.
Og talandi um kvenleikann. Í bókinni gefur Joan allskonar góð ráð. Hún segir að það skipti ekki máli þó að þú hafir ekki Hollywood útlitið eftirsótta heldur sé það í eðli hverrar konu að líða betur þegar hún lítur vel út og að því eigi að sinna í stað þess að miða sig við staðalmyndir.
Hún talar um mikilvægi þess að greiða hárið rétt og reglulega, bera á húðina rakakrem, snyrta sig hóflega og ganga í fötum sem eru vel samansett. Hún leiðbeinir við líkamsrækt og megrun eða fitun. “Sértu of grönn er gott að drekka svolítinn rjóma en sértu of þung þá skaltu halda þig frá feitmeti.” Ótrúlega einfalt og beisikk.
Það á ekki að vera neitt samansem merki á milli þess að vera máluð og puntuð pjattrófa og að vera ekki hlynnt jafnrétti. Það kvenlega í heiminum, og það sem konum þykir skipta máli, hefur oft þurft að víkja í virðingarstiganum fyrir því sem körlum þykir merkilegt og gott. En við ætlum ekkert að spila með í þessum leik. Við ætlum að punta okkur og pjatta um leið og við leggjum áherslu á að virðing sé borin fyrir okkur.
Og ef karlinn þinn fer að ergja sig á því hvað þú ert lengi að skipta um föt, eða punta þig… þá skaltu spyrja hann hvort hann vilji heldur að þú slepptir þessu.
Hann verður ekki lengi að átta sig.
Með því að hafa okkur til og hirða um líkamann og útlitið erum við að halda svolítið upp á lífið, gleðja sjálfar okkur og fólkið í kring. Það er gaman að vera pjattrófa!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.