Er makinn kvartandi og kveinandi yfir því að þú eyðir ekki eins miklum tíma með honum, eða lætur hann þig fá samviskubit yfir því að þú ert að gefa þér tíma til að hreyfa þig, fara í ræktina, segja nei við kökusneið og svo framvegis ?
Reynir makinn kannski að koma inn sektarkennd þegar þú ert að taka á heilsunni?
Hver gæti verið ástæðan ?
Félagi þinn elskar þig og hann vill að sjálfsögðu eyða tíma með þér, en hann gæti saknað þess sem þið hafið alltaf verið að gera og hann er ef til vill hræddur við þær breytingar sem eru að eiga sér stað.
Hvað er hægt að gera ?
Ef þú getur gert málamiðlanir þá áttu endilega að gera það. Getur þú farið á æfingar á öðrum tíma, getur þú farið t.d á æfingu úti einu sinni í viku þar sem hann getur komið með ? Getur þú haft nammidag fyrir hann einu sinni í viku og svo framvegis ?
Mundu bara að þú átt skilið að vera heilbrigð og hamingjusöm og reyndu að fá maka þinn til að taka þátt í því sem þú ert að gera. Ef hann vill það ekki mundu samt að sá árangur sem þú hefur náð er glæsilegur og þú átt rétt á því að vera ánægð með hann, sama hvað öðrum finnst.
Ertu búin/n að lesa Makinn og þyngdartap 1 – Ótti ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.