Það eiga allir sín tískuslys. 80’s árin voru eitt stórt slys en ýmislegt furðulegt var líka að finna í áratugnum sem kom þar á eftir en þá var ég einmitt unglingur.
Þegar ég var um fermingu var grunge-ið í hámarki og allir voru í hermannaklossum, rifnum gallabuxum og köflóttum trukkabílstjóraskyrtum innundir kraftgalla sem hiklaust voru praktískasta “tískuflíkin” á Íslandi á þessum tíma. Hippatískan var með comeback og fermdist ég í ljósgulum blúndu-hippakjól með blómakrans í hárinu.
Margt var eflaust bara svona “íslensk tíska” -eins og þegar Debut með Björk kom út og við stelpurnar klæddum okkur í ullarnærboli utanyfir bómullarboli, afa-náttbuxur úr Hjálpræðishernum og vorum með hina frægu “Bjarkarsnúða” í hárinu. Myndin Tank Girl kom út á svipuðum tíma og það þótti afskaplega kúl að vera í afklipptum gallastuttbuxum, rifnum sokkabuxum og magabol á balli í Tónabæ.
Fyrir tíma internetsins sóttum við unglingarnir aðallega innblástur okkar í bíómyndir og tónlistarmenn og ef fólk vill rifja upp tískuna og anda þessa tíma þá mæli ég með myndunum Reality Bites, Clueless, Tank Girl, Pulp Fiction, KIDS og þáttunum My So Called Life.
Þó okkur vinkonunum hafi þótt gaman að Clueless þá var þessi LA glamúr of framandi og við fundum okkur meira í London tískunni og gleyptum í okkur tískublöð á borð við The Face. Á seinni árum ungdóms míns var tími danstónlistar og klúbbamenningar í Reykjavík og þá mátti sjá okkur vinkonurnar í skopparafötum að hanga með “skeiturunum”.
Á þessum tíma varð mitt mesta tískuslys: í plastbuxum, magabol, með öryggisnælu í naflanum og í upphækkuðum strigaskóm…(Buffalóskór voru jú fyrir verslópíur, við létum ekki sjá okkur í þeim þó það hafi örugglega verið vinsælustu skórnir á þessum tíma)…
Kíktu hér á nokkrar vel valdar myndir sem gefa smá innsýn í tískuna á síðasta áratug síðustu aldar…
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.