Ég hef á síðustu árum orðið meðvitaðari um hversu illa við mannfólkið förum með plánetuna okkar.
Við komum fram við hana eins og við höfum aðra plánetu til að fara á – þegar raunin er sú að hún er það eina sem við eigum. Við ættum því öll að reyna að leggjast á eitt við það að ganga betur um og vera umhverfisvænni til þess að afkomendur okkar geti notið hennar rétt eins og við.
Það er kannski létt að predika yfir fólki: Vertu umhverfisvænni! en það getur verið erfiðara að fylgja því eftir. Þegar ég hef átt þessar samræður við vinkonur mínar hafa sumar þeirra oftar en ekki sagt að þær myndu endilega vilja vera umhverfisvænni, en vita kannski ekki hvar á að byrja. Hvað er hægt að gera? Hvernig er hægt að koma betur fram við plánetuna okkar?
Margir eiga líka til með að hugsa “ég er bara ein manneskja, það skiptir ekki máli þó ég sé ekki umhverfisvæn/n”. Þetta er rosalega röng hugsun, vegna þess að ef allir hugsa svona er voðinn vís. Þú skiptir máli og það sem þú gerir skiptir máli. Því fleiri sem eru meðvitaðir því betur göngum við um jörðina. Margt smátt gerir svo sannarlega eitt stórt.
Hér eru nokkrar hugmyndir að því hvernig þú getur reynt að vera umhverfisvænni:
1. Notaðu fjölnotapoka þegar þú ferð í búðina
RÚV fjallaði eftirminnilega um plastpokanotkun Íslendinga fyrr á árinu en eins og kemur fram í fréttinni þeirra henda Íslendingar 70 milljón plastpokum á ári. Þessi fjöldi er að mínu mati geðbilaður, við erum bara rúmlega þrjúhundruð þúsund manna þjóð.
Flestir þessara plastpoka eru urðaðir en plast getur innihaldið skaðleg efni sem getur þá smitast út í lífríkið í kring, auk þess er plast allt að 1000 ár að brotna niður í náttúrunni. Tala nú ekki um að það kostar að grafa þá í jörðina (vinnuvélarnar ganga fyrir bensíni til dæmis). Við getum minnkað þennan kostnað og álag á jörðina með því að nota fjölnotapoka.
Uppáhalds fjölnotapokarnir mínir eru frá Baggu og fást til dæmis í Heilsuhúsinu og Hagkaup. Kosturinn við þá er að þeir koma sjálfir í litlum poka svo það er auðvelt að geyma þá í veskinu eða úlpunni svo þú ert alltaf með poka á þér þegar farið er í búðina. Fyrir utan það eru þeir sterkari og rúmgóðari en plastpokar þannig það er miklu léttara að bera þá.
2. Kláraðu matinn þinn
Allt að einum þriðja af matnum sem er framleiddur í heiminum í dag er einfaldlega hent – um 1,3 milljarði tonna … af fullkomlega boðlegum mat, sóað.
Þú getur gert mikið gagn bara með því að borða það sem þú kaupir. Ekki henda matarafgöngum, kláraðu þá – kynntu þér hvernig er hægt að skapa góðar máltíðir úr hinu og þessu sem er til afgangs í ísskápnum, og umfram allt ekki kaupa meira en þú og þínir neytið.
Að henda mat kostar alla – það kostar að flytja mat utan úr heimi með flugvélum eða skipum alla leið til Íslands, það kostar verslanir að þurfa að kaupa meira inn (sem skilar sér í hærra vöruverði) og það kostar þig sem hinn almenna neytanda að kaupa of mikið af mat sem þú endar svo hvorteðer bara á að henda.
Planaðu fram í tímann – skoðaðu reglulega hvað þú átt til af mat og kauptu í samræmi við það sem vantar, frystu það sem þarf að geyma í lengri tíma og reyndu að elda ekki langtum meira en fjölskyldan borðar.
Ef grænmetið í ísskápnum er farið að vera slappt geturðu skorið það niður og búið til holla og gómsæta súpu. Brokkolístöngla er líka hægt að setja í blandara og nota til súpugerðar í stað þess að henda þeim í ruslið og ávextir sem eru ekki enn upp á sitt besta eru frábærir í boost.
Tæknin getur líka hjálpað okkur í þessu, en það er til dæmis til app sem heitir Food safe sem hjálpar þér að fylgjast með því hvað er í ísskápnum þínum og það lætur þig vita hvenær maturinn nálgast síðasta neysludag.
3. Hættu að henda rusli á jörðina
Þetta er ótrúlega einfalt. Það er einfaldlega bara ljótt og sóðalegt að henda drasli á jörðina. Geymdu safafernuna eða bréfið utan af súkkulaðinu í vasanum ef engin ruslatunna er í kring. Ekki henda tyggjói á jörðina … við vitum í rauninni ekkert hversu mikið svona drasl er að hafa áhrif á plöntu- og/eða dýraríkið í kringum okkur en flest okkar hafa samt líklega séð myndir af dýrum sem hafa fests í plasti utan af bjórkippum eða fuglum sem hafa innbyrt gamla tappa eða annað smádrasl. Þetta er svo einfalt að gera, umhverfið lítur betur út, dýrin hafa það betra og við erum ánægðari.
4. Endurnýttu og flokkaðu!
Það er rosalega einfalt að byrja að flokka, eftir svolítinn tíma er það orðinn sjálfsagður partur af tilverunni. Flokkaðu í lífrænt sorp (í þar til gerða maíspoka), flokkaðu pappír, plast, gler og málm. Það virkar kannski erfitt í fyrstu en það er það alls ekki.
Nálægt hverfum eru oftar en ekki tveir stórir gámar, annars vegar fyrir pappír og hins vegar fyrir plast. Það er ekkert mál að hafa poka inni í geymslu sem þú setur plast í og henda honum svo út í plastgáminn þegar hann fyllist.
Það er rosalega mikilvægt að flokka pappír og endurvinna hann.
Ef þú hugsar út í það þá er pappír búinn til úr trjám. Hvað þarf þá að gera til að búa til pappír? Jú, það þarf að fella tré. Hvað annað gera trén? Jú nefnilega, Þau veita okkur súrefni. Því minna af pappír sem við endurnýtum, því meira af trjám þarf að fella. Með því að endurvinna pappír þurfum við ekki að fella eins mikið af trjám, stór plús fyrir okkur og stór plús fyrir umhverfið.
5. Kauptu endurunninn klósettpappír (og eldhúspappír)
Af sömu ástæðu og við ættum að endurvinna allan pappír ættir þú að venja þig á að kaupa endurunninn klósettpappír, en til að gera þann klósettpappír þurfti ekki að fella nein ný tré.
Eldhúspappírinn set ég í sviga vegna þess að mér finnst hann alveg óþarfur, það er alltaf hægt að nota tusku og ef þú þarft að snýta þér geturðu farið og náð í endurunna klósettpappírinn þinn… En ef þú vilt nota eldhúspappír mæli ég með því að þú kaupir hann endurunninn líka.
Hvar er hægt að kaupa endurunninn klósettpappír? Stórkaup birgðaverslun er til dæmis með stórar pakkningar af endurnýttum eldhús- og klósettpappír frá Papco. Skoðaðu síðan bara utan á pakkningarnar, ef pappírinn er endurunninn er það pottþétt tekið fram á pakkningunni.
6. Eitt tissjú er nóg
Þetta sé ég fólk trekk í trekk gera. Það fer í Hámu í Háskólanum eða í Ikea til að borða og tekur oft heilu hrúgurnar af servíettum – til þess eins að nota eina og henda svo öllu klabbinu ónotuðu í ruslið! (og nota bene, þetta er pappír sem fer líklegast frekar í almennt rusl en ekki í endurvinnsu eða lífrænt sorp). Þú þarft í alvörunni ekki meira en eina servíettu (þú þarft jafnvel ekki einusinni eina servíettu).
Sama dæmi með það þegar fólk fer á almenningsklósett og þvær sér síðan um hendurnar , rífur þá oft niður ekki eitt bréf – heldur tvö – þrjú – fjögur eða fleiri! Öll bréfin enda svo á að vera hvert um sig bara örlítið blaut og þessu er svo hrúgað ofan í ruslatunnuna sem er smekkfull af jafn þurrum og lítið notuðum bréfþurrkum.
Þú þarft í alvörunni ekki meira en eitt bréf. Þurrkaðu þér almennilega með einu bréfi og settu það í ruslið. Ef allir gerðu þetta þyrfti að kaupa minna af bréfþurrkum, sem ylli því að ekki þarf að framleiða jafn mikið, sem yrði til þess að náttúrann okkar fengi aðeins meira breik.
7. Slökktu ljósin/á tölvunni/á sjónvarpinu o.s.fv.
Það kostar að framleiða rafmagn. Við erum heppin á Íslandi að framleiðsla rafmagns er tiltölulega umhverfisvæn – landar okkar úti í heimi búa ekki við sama lúxus, en það þýðir samt ekki að við getum sóað bara til að sóa.
Vendu þig á að slökkva ljósin í herberginu þegar þú ferð út úr því. Slökktu á sjónvarpinu ef þú skreppur í burtu, slökktu á fjöltenginu sem þú ert ekki að nota .. þetta er einfalt að gera og sparar þér um leið nokkrar krónur í rafmagnsreikning.
8. Skrúfaðu fyrir kranann
Sama og með rafmagnið, það kostar á endanum að framleiða vatn, þó við séum heppnari en aðrir jarðarbúar varðandi hvernig þetta er gert á Íslandi þurfum við samt ekki að sóa því sem við eigum.
Ekki láta kranann ganga meðan þú tannburstar þig, ekki eyða 40 mínútum í sturtunni, ekki láta heita vannið renna endalaust þangað til þú loksins drífur þig í uppvaskið … það tekur enga stund og kostar ekkert að slökkva á krananum meðan vatnið er ekki í notkun – og þú sparar.
9. Borðaðu oftar grænmetisrétti
Nú er ég ekki grænmetisæta svo þessi punktur minn stafar ekki af því viðhorfi. Staðreyndin er því miður bara sú að kjötframleiðsla leggur meira álag á náttúruna og er skaðlegra umhverfinu en grænmetisframleiðsla.
Jákvæði punkturinn er sá að þú getur boðið fjölskyldunni upp á umhverfisvænni hollustu með því að bera fram grænmetisrétti einu sinni til tvisvar í viku! Hér geturðu fundið nokkrar frábærar hugmyndir að grænmetisréttum.
Við eigum bara eina jörð, förum vel með hana.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.