Er þér ekki kalt? Ertu ekki orðin þreyttur? Finnst þér þetta í alvöru góður matur? Eigum við að koma?
Þetta eru nokkur góð dæmi um spurningar sem eru í raun ekki spurningar heldur persónulegar yfirlýsing og ef marka má hinn víðfræga Dr. Phil þá eru víst 80% allra spurninga af þessu tagi.
Um leið og maður byrjar að taka eftir þessu í samskiptum vekur það furðu hvers vegna við eigum stundum svona bágt með að segja hvað okkur finnst eða hvernig okkur líður.
Þess í stað reynum við að yfirfæra eigin skoðanir, tilfinningar, upplifanir og/eða þarfir yfir á aðra og gerum þannig spurningar úr því sem ættu að vera yfirlýsingar.
Dæmi um þetta eru t.d.
- Ertu ekki orðin svöng? =Ég er svöng.
- Langar þig að fara í þessum buxum? =Ég myndi ekki láta þig fara í þessum buxum ef ég mætti ráða.
- Ætlarðu í alvöru að kjósa Samfylkinguna? =Ég myndi aldrei kjósa samfylkinguna.
- Ertu ekki orðin syfjaður? =Ég er orðin syfjuð og mér finnst að við ættum að fara inn í rúm.
Svona mætti í raun endalaust telja.
Kannski er það verðugt verkefni að fylgjast með sjálfri sér í samskiptum við annað fólk og telja hvað þetta gerist oft yfir daginn? Hugsanlega mætti fækka spurningunum og prófa að segja:
Æi, ég er orðin syfjuð, ætla inn í rúm og langar að fá þig með.
Heyrðu mér finnst þessar buxur ekki fara þér nógu vel, viltu ekki heldur þessar bláu þú ert æðislega flottur í þeim eða ‘ég er orðin frekar svöng, viltu kannski fá þér smá bita með mér’?
Þarna eru spurningarnar alvöru spurningar.
Hrein og bein samskipti eru yfirleitt þægilegri og skemmtilegri en svona ‘spurninga’ samskipti sem geta oft kallað fram stífa stemmningu og jafnvel meðvirknisleg viðbrögð. Spurning sem er hrein og klár spurning er mikið skemmtilegri en dulbúin yfirlýsing – án þess þó að farið sé út í öfga.
Þetta er pæling.
Taktu eftir því næst þegar einhver spyr þig hvort þér sé ekki kalt eða þú svöng… er raunverulega verið að spyrja ÞIG eða er manneskjan kannski bara að reyna með óbeinum hætti að láta vita hvernig henni eða honum sjálfum líður?
Auðvitað byrjum við alltaf á okkur sjálfum samt því öðrum er víst ekki hægt að breyta. Þannig að næst skulum við bara segja – Nú er ég þreytt og mig langar inn í rúm.
Góða nótt og góðar stundir. xBB
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.