Hvernig er umhorfs í fataskápnum hjá þér? Eru skáparnir og skúffurnar til í að taka á móti sumarfötum?
1. Búðu til æðislegan ‘playlista’
Spotify er auðvitað alveg málið og ef þig vantar einn góðan þá skaltu bara skrolla neðar á síðuna og sjá… þar er playlisti! Hann keyrir upp stemmarann og kemur þér í gang. Ef þér finnst hreinsunarferlið í fataskápnum mjög stressandi er kannski betra fyrir þig að hlusta á eitthvað róandi, – svo er líka hægt að stilla á Madonnu rásina á Spotify. Hún bjargar oft deginum og þá sér í lagi þegar maður þarf að takast á við dramatískt uppgjör við fataskápinn sinn.
2. Líttu á þetta sem detox
Þú veist að reglan er almennt sú að ef þú hefur ekki notað flíkina í eitt ár þá er ekki líklegt að þú sért að fara í hana á næstunni. Stundum skiptum við einfaldlega um ham, – og fötin eru hamur. Hamskipti!
Búðu til þrjár hrúgur á gólfið 1. Gefa 2. Henda 3. Geyma.
Gefðu það sem er of gott til að henda, (t.d. í rauða krossinn), hentu því sem er slitið og þreytt og geymdu það sem er bara of verðmætt, vel gert, dýrt, fallegt, klassískt til að því sé haldið. Ekki fara í tilvistarkreppu yfir ferlinu. Mundu að þetta eru bara föt svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur. Þau koma og fara. Og eiga að gera það.
3. Sorteraðu vetur frá sumri
Taktu nú frá fötin sem þú ætlar að halda en henta ekki árstíðinni, láttu þau í kassa og komdu fyrir í geymslu. Passaðu samt að halda eins og einni peysu og góðum jakka því það er ekkert alltaf hlýtt á klakanum. Athugaðu bara að þú þarft alls ekki átta af hvoru. Ein eða tvær peysur duga. Sumt notar maður allt árið um kring, eins og t.d. leðurjakka eða síðar peysur, svo athugaðu að skilja eftir herðatré fyrir þær flíkur.
4. Aftur að eins árs reglunni
Árs reglan sem er nefnd hér á undan er mjög mikilvæg. Ekki láta aðgerðir þínar stjórnast af því sem þú heldur að þú sért að fara að gera. Horfðu frekar á það sem er búið að gerast. Þú hefur jú ekkert farið í þessi föt síðasta árið… af hverju ætti það að gerast á morgun? Let go.
Flíkin á að vera falleg á þér en ekki á herðatrénu.
5. Hafðu gott skipulag í skápnum
Þú ert fullorðin núna. Allt fullorðið fólk elskar Byko, Bauhaus og Ikea og þú ættir að gera það líka. Náðu þér í létt herðatré, skógrindur, kassa og hvaðeina sem gerir skipulagið í skápnum betra. Komdu þessu fyrir og vertu endilega búin að kaupa þetta áður en þú ræðst í stóra verkið.
6. Fáðu vinkonu, og vínflösku, með í verkið
Það er frábært að fara í gegnum þetta ferli með góðri vinkonu sem þú treystir. Einhverri sem lánar þér dómgreind og getur hjálpað þér að ákveða hvort það á að halda í, gefa eða geyma flíkina. Þar fyrir utan verður þetta mikið skemmtilegra með góðri vinkonu, svo ekki sé minnst á ef þið verðið örlítið hífaðar í leiðinni. Við mælum með góðri flösku af freyði eða rósavíni.
7. Ertu til í að selja?
Fötin sem þú ákvaðst að halda í en gefa hvorki né henda gætu breyst í peninga. Ef þú ert týpan sem nennir því þá er fullt, fullt af sölusíðum, hvort sem er Facebook eða Bland, þar sem hægt er að selja góðar flíkur. Kolaportið og aðrir markaðir koma líka til greina. Prófaðu að gera það… og gefðu svo restina.
8. Farðu strax í Rauða Krossinn eða Sorpu!
Ekki bíða með svarta ruslapokann í svefnherberginu í margar vikur eftir að þú ert búin að fara í gegnum ferlið. Drífðu þig með þetta í Sorpuna og brunaðu svo beint á Laugarveginn í verslunarleiðangur!
Gleðilegt sumar og gleðilegan nýjan fataskáp!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.