Tinna pjattrófa birti skemmtilegan lista yfir góð sparnaðarráð fyrir námsmenn eins og hana sjálfa.
Ég hef gert margt svipað og er á listanum hennar Tinnu og get sagt þér að nokkrir svona litlir hlutir geta gert ótrúlega mikið en eins og einhver sagði; “Margt smátt gerir eitt stórt”.
Einnig vil ég beina orðum mínum að öllum keppnismanneskjunum þarna úti. Hversu gaman væri að setja sér svona markmið um sparnað eins og Tinna gerir og reyna að keppa við sjálfa sig?? Ég veit ekki með þig en ég er orðin ansi spennt fyrir því að setja mér markmið.
Nú eyði ég meira í snyrtivörur en mat. Snyrtivörur eru dýrar og þegar þannig stendur á að ég á hreinlega engan pening til að kaupa mér maskara á fimm þúsund kall og meik á sex þúsund þá notast ég gjarnan við nokkur trix sem ég hef pikkað upp hér og þar í gegnum tíðina.
Ég vil taka það fram að þessi trix eru algjör neyðarúrræði.
1. Maskarinn. Ef þú átt góðan maskara sem er farinn að þorna þá geturu sett tvo dropa af vatni í hann til að lengja endingartímann.
2. Hárnæringin og sjampóið. Yfirleitt eru hárvörur unnar úr sterkum efnum svo þær mega alveg við því að blandast við vatn án þess að virkni þeirra minnki til muna. Ég hef komist upp með að þvo hárið annan hvern dag með hjálp þurrsjampós. Ég mæli með Batiste þurrsjampóinu sem fæst í Bónus og kostar um fimmhundruð krónur síðast þegar ég vissi. Svo er líka rosalega góð lykt af því.
3. Raksápan. Vinkona mín kenndi mér einu sinni það trix að notast við hárnæringu þegar raksápan klárast. Hún benti mér á að ef ég ætti Wella hárnæringu heima gæti ég notað hana því hún er einmitt frekar feit næring og ekki dýr.
4. Púðrið. Þegar ég á orðið 10 hálfkláraðar púðurdósir, þið kannist kannski við púðurskánina meðfram dósinni sem erfitt er að ná í með svampinum, þá mixa ég nokkur púður saman í eina dós. Púðrin verða auðvitað öll að vera af stömu tegund og sama lit. Ég myl þau, set nokkra dropa af vatni saman við og nota skeið til að pressa saman í eina púðurdós.
5. Meikið. Ef ég kaupi dýrt meik þá passa ég mig á því að það sé með skrúfanlegri pumpu svo ég geti notað það meik sem pumpan nær ekki til. Það er oft mikið eftir af meikinu þó að ekkert komi úr pumpunni.
6. Varaliturinn. Þegar uppáhalds varaliturinn “klárast” nota ég varalitapensil til að ná í þessa rest sem er eftir á botni varalitarins. Áttu ekki varalitapensil? Notaðu eyrnapinna. Líftími varalitarins eykst um tvo mánuði.
7. Litað dagkrem. Á vorin og sumrin er kjörið tækifæri til að vera með léttan farða. Þá getur litað dagkrem virkað eins og 2 fyrir 1 tilboð því þarna ertu bæði með rakakrem og létt meik.
8. Bólubaninn. Þú færð bólu en átt ekkert sérstakt gel eða krem sem tekur á þeim vanda. Tannkrem er algjört neyðarúrræði í þessum aðstæðum. Ef þú ert með mjög slæma húð þá ekki undir neinum kringumstæðum bera þetta á allt andlitið á þér. Þetta trix er ætlað þeim sem fá eina til tvær bólur.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.