Nú fer veturinn að skella á og eflaust margir sem eru lítið hrifnir af því.
Ég, persónulega, er meira fyrir veturinn en sumarið. Þó svo að þetta sumar sem nú er að líða hafi verið alveg æðislegt að þá eru íslensk sumur sjaldan svona og þessvegna er ég yfirleitt hrifnari af vetrinum. Ástæðurnar fyrir ást minni á vetrinum eru nokkuð margar en hér koma bara sex.
1. Kerti
Ég elska kerti og vil helst hafa kerti útum allt í íbúðinni! Það er alveg tilgangslaust að kveikja á kertum um hásumar og ég fagna því að það er orðið dimmt úti á kvöldin svo maður getur kveikt á kertunum sínum og haft kósý.
2. Teppi og kúr
Kósý kúr undir teppi með manninum mínum og rauðvínsglas, veit um fátt betra!
3. Úlpan mín
Það er ekki alltaf hægt að klæða sig eftir veðri á sumrin, oftast er gluggaveður á Íslandi á sumrin og ef maður er í kjól þá er kalt þegar maður fer í skugga eða það kemur smá gola. Ef það er jakkaveður þá er of heitt inní bíl. Á veturna hins vegar er hægt að klæða sig í hlýju dúnúlpuna og í vetrarskóna og vera alltaf hlýtt.
4. Snjórinn
Ég elska snjó! Sérstaklega þegar það er logn og ég sit í heita pottinum og það snjóar, helst alveg brjálæðislega mikið! Að fara út að leika í snjónum með krökkunum og koma inn og allir fá heitt kakó, alveg yndislegt!
5. Kósý sokkar
Loðnir hlýjir kósý sokkar er í uppáhaldi. Held ég eigi svona 10 pör, sérstaka jóla sokka, eina með gúmmíi undir svo ég fljúgi ekki á hausinn og allskonar. Mjúkir, stórir sokkar eru algjört æði.
6. Rútínan
Yfir sumarið er frí í skólum og leikskólnum, rútínan fer alveg útum gluggann og ég hefði alveg eins getað flogið með. Veturinn er minn tími, mæti reglulega í ræktina, borða reglulega, vakna á eðlilegum tíma og börnin líka. Mikið hlakkar mig til!
Ég mæli með að þú takir vetrinum fagnandi, kúrir nóg með kertaljós og góðum félagsskap og gerir gott úr þessu. Við erum jú einu sinni Íslendingar 😉
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður