Ef það er eitthvað sem ég get flokkað sem guilty pleasure í mínu lífi, þá er það AliExpress– hvort sem það er að vafra um og skoða eða aksjúallí kaupa dót!
Og á vissum augnablikum í lífi mínu hef ég meira að segja gengið það langt að nánast viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég gæti átt við Alivandamál að stríða- En ég er nú reyndar alltaf jafn fljót að þagga niður í þeirri neikvæðnisrödd!
Málið er að þessi dásamlega síða, AliExpress.com, er himnaríki lowbudget kaupandans í hinu íslenska verslunarumhverfi þar sem
A) allt sem þig langar í kostar hvítuna úr augunum og nafnið á frumburðinum
B) ef það er á viðráðanlegu verði þá eiga allir og ömmur þeirra það og tvennt af því og
C) kíkið aftur á lið A!
En það þarf samt sem áður að hafa nokkur atriði í huga þegar maður er að versla þar:
A) Varan er pottþétt ekki á þröskuldinum hjá þér á morgun.
B) Ef þú ert að kaupa þér föt, aldrei kaupa small nema þú sért mjög grönn- frekar kaupa XL- það passar á svona þessa normal íslensku meðalmanneskju.
C) Þú gætir hugsanlega verið að fara að fá drasl- en hey, það kostar þó allavega innan við 1000 kall! og…
D) Ef þú ert heppin er biðin eftir vörunni ekki meiri en svona vika-hálfur mánuður en getur alveg farið upp í 6 vikur, en ég er alveg til í að bíða þann tíma ef ég spara mér þennann pening á því!
Háværar raddir um að “versla í heimabyggð” hafa heyrst, og orðið háværari með hverri manneskjunni sem kemur sér fyrir á fyrsta farrými á AliExpress og drommar sér af stað í þeysireið, en þegar mig vantar hulstur utan um nýja símann minn og það kostar 8.990 krónur hjá fjarskiptafyrirtækinu sem ég keypti símann hjá á meðan nákvæmlega sama hulstur kostar 2,99 dollara á AliExpress með fríjum sendingarkostnað þá er reikningsdæmið einfalt!
Ég setti mér þó snemma skorður með Alineyslu mína:
Ekkert yfir 10 dollurum: Helst ekki kaupa eitthvað ef það kostar meira en 10 dollara og aldrei að kaupa neitt sem er með sendingarkostnað (nema mig langi óhugnalega mikið í það og það sé ekki til nema með sendingarkostnaði, sem er þó ekki oft).
Þetta með sendingarkostnaðinn er reyndar bara skynsamlegt þar sem þegar maður setur eitthvað inn í leit og slær því upp, þá er svo hægt að ýta á “free shipping” hnapp og þá sér maður bara það sem er með fríann sendingarkostnað- óhugnalega sniðugt! En þessar skorður sem ég set mér hafa gert það að verkum að það mesta sem ég hef farið upp í með mína Alieyðslu á mánuði er átta þúsund krónur.
Í galleríi hér fyrir neðan er hægt að sjá þverskurð af því sem ég hef verslað á Ali í gegnum tíðina. Sumt er ég bara nýbúin að panta og því ekki búin að fá í hendur, en annað er ég löngu komin með.
Ég snippaði þetta til þannig að þið sjáið bæði mynd af því sem ég keypti og hvað það kostaði (nema með vegglímmiðana og hlýrabolina, bolirnir eru á 4,96 dollara og vegglímmiðarnir yfirleitt á svona 1-2 dollara) svo þið fáið hugmynd um það hversu hagstæð þessi innkaup eru.
Smelltu á myndirnar til að stækka textann upp
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.