Fyrir nokkrum árum fékk ég að láni bók frá góðri vinkonu um 5 táknmál ástarinnar eftir dr. Gary Chapman. Ég hef aldrei verið mikið að lesa “sjálfshjálparbækur” en þessi fékk mig til að skilja betur hvað fólk er misjafnt og þarfir þess misjafnar.
Við finnum og sýnum ekki ást okkar og umhyggju á sama hátt og í samböndum veldur þetta oft misskilning sem hægt er auðveldlega að komast hjá ef við vitum “ástar-mál” maka okkar.
Táknmálin eru 5
- Orð -er hrós þér mikilvægt, falleg og hvetjandi orð, tjáir þú ást þína með orðum?
- Samvera -viltu að maki þinn eyði meiri tíma með þér, sýnir þú ást þína með því að eyða tíma með ástvinum.
- Gjafir -tjáir þú ást með gjöfum og fær óvænt gjöf þig til að finnast þú elskuð?
- Greiðsemi -lætur þú verkin tala og vilt að þeir sem þú elskar geri hluti fyrir þig, hjálpi við heimilisstörf og geri þér greiða?
- Snerting -snertir þú, faðmar og strýkur þeim sem þú elskar og vilt að þú sért föðmuð og snert til að finnast þú elskuð?
Tökum dæmi:
Þú ert óánægð í sambandi þínu vegna þess að þér finnst maki þinn ekki taka þátt í heimilisstörfunum og ekki faðma þig og snerta nóg. Makinn hrósar þér þó oft og segir þér að hann elski þig og sé stoltur af þér og honum finnst þú ekki segja það nógu oft við hann. Hér getur vandamálið verið að þú sýnir ást þína aðallega í verkum, þú gerir hluti fyrir aðra, heimilisstörfin, þrífur bílinn eða eldar góðan mat fyrir maka þinn og þér finnst að með því eigi hann að vita hvað þú elskar hann mikið. Hinsvegar finnst honum ekki eins mikilvægt að þú gerir þessi verk fyrir hann heldur vill hann heyra að þú elskir hann og dáir. Næst mikilvægasta táknmál fyrir þig er svo snerting, þú vilt að maður þinn komi heim og kyssi þig og faðmi og að hann kúri með þér í sófanum yfir sjónvarpinu. Honum finnst þó nóg að vera nálægt þér, sýna þér athygli og vera “til staðar” og skilur ekki hve´rs vegna þú ert ekki ánægð með það. Það getur þýtt að tími og samvera er mikilvægara fyrir maka þinn en snerting, hann sýnir þér ást sína með því að vera á staðnum, en þú sýnir hana með því að faðma hann og kyssa.
Um leið og við skilgreinum ástar-mál okkar og maka okkar þá getum við betur komist til móts við þarfir hvors annars og komið í veg fyrir óþarfa misskilning og leiðindi. Ég mæli með þessarri bók, hún opnaði allavega augu mín.
Hér getum við lesið meira um þessi 5 táknmál ástarinnar og tekið próf til að finna hvaða táknmál er okkur mikilvægast.
Ég las hana á ensku á sínum tíma en rak augun í hana í íslenskri þýðingu á bókakaffihúsinu Glætunni.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.