Nútímasamfélagið og kröfurnar sem við setjum á okkur leiða til þess að lífið þeytist fram hjá á meðan við reynum að halda í við það.
Augnablikin líða æ hraðar og við eigum það til að missa af eða hraðspóla yfir þau í stað þess að njóta þeirra, grípa þau og búa til með þeim einstakar minningar.
Við þurfum að lifa meira í núinu og hægja á okkur ef við viljum ekki vakna upp einn daginn og átta okkur á að tækifærin hafa runnið okkur úr greipum. Svo er enginn stopptakki á áhyggjum okkar en við getum lært að stjórna þeim.
1. Þakkaðu fyrir það sem þú átt í dag
Svo mörg okkar eru aldrei ánægð með það sem þau eiga – vilja fleiri hluti, föt og skó, flottari bíl og stærra hús. Við tökum oft þeim sem standa okkur næst sem sjálfsögðum hlut; maka, fjölskyldu og vinum. En þau sem standa okkur næst eru yfirleitt það dýrmætasta í lífinu.
Hlutir koma og fara og þetta sífellda kapphlaup að eignast meira og meira getur verið þreytandi. Það virðist aldrei verða nóg hvort eð er, hvers vegna ekki að eyða þessari orku frekar í að njóta þess sem við höfum, upplifa meira og þakka fyrir?
2. Opnaðu augun og vertu hér og nú
Þegar hugurinn fer sífellt til fortíðar og framtíðar þýtur lífið fram hjá okkur. Ekki loka á tilfinningarnar þínar, fyrirgefðu og lagaðu vandamál fortíðarinnar og finndu sjálfstraust fyrir framtíðina þá fyrst getur þú lifað í núinu.
Þú verður að hafa trú á og vinna með þér sjálfri. Þegar þú ert raunverulega að upplifa augnablikið, þegar þú skynjar, finnur, hlustar og heyrir meira, nýtur augnabliksins án þess að hugurinn fari á flakk og þú ert ekki að flýta þér, þá ertu á staðnum hér og nú. Þú upplifir einskonar tímaleysi og þú tengist líðandi stundu.
3. Hættu að vera alltaf á hlaupum
Börnin eru frábær, þau taka sinn tíma í allt sem þau gera, skoða blómin sem liggja meðfram göngustígum, horfa á fuglana hoppa á götunni eða milli trjánna, skoða fólkið og heilsa. Þau kunna ekki á klukku, þau skilja ekki af hverju mamma og pabbi eru alltaf að drífa sig, þau lifa í augnablikinu og hafa ekkert fyrir því.
Af hverju þurfum við alltaf að vera á hlaupum?
Fæstum finnst gaman að vera alltaf að drífa sig, samt eigum við það til að fullbóka okkur og enda á að eiga streitumikla daga frekar en ánægjumikla. Börnum er sagt að drífa sig og streitast á móti sem gerir alla úrilla.
Við stjórnum okkar lífi, það er ekki þar með sagt að við getum hætt að vinna, – en við stjórnum tímanum í kringum vinnuna og aðrar skyldur. Nýtum tímann okkar rétt!
4. Notaðu sköpunargáfuna þína
Í samfélaginu í dag erum við sífellt á hlaupum, en það er ekki eingöngu vegna tímaleysis heldur að miklu leiti skrifast þetta forgangsröðun okkar. Hversu miklum tíma á dag eyðum við á Facebook eða á flandri um netið? Væri hægt að nota tímann í annað?
Ef þú hefur áhuga á einhverskonar sköpun þá skaltu hoppa á það, byrja núna, eftir hverju ertu að bíða?
Engar áhyggjur, við erum flest öll léleg til að byrja með en sköpun eykur oft gleði. Við þurfum oft að fara út fyrir þægindahringinn sem á það til að stoppa okkur.
Taktu skrefið, þú sérð aldrei eftir því en getur séð eftir því að gera það ekki.
5. Brostu og hrósaðu þeim sem eiga það skilið
Dagurinn verður svo góður þegar þú brosir og aðrir brosa til þín, fátt er skemmtilegra en að lenda á góðu þjónustufólki, hvað þá nokkrum í röð á sama degi eða brosmildu fólki á flandri um bæinn.
Eitt hrós sem þú gefur getur haft svo mikil áhrif, dagur hennar getur orðið miklu betri, jafnvel vikan.
Það er ástæðan fyrir því að við tölum um að gefa hrós, en það er gjöf sem kostar okkur ekkert. Ekki spara hrósin og ekki spara brosin, þau geta bara leitt til hamingju og þakklætis hjá þér og öðrum.
Skoðaðu náttúruna í kringum þig, horfðu á litríku húsin, horfðu í augun á makanum þínum eða líttu á úfna hárið á börnunum þínum eftir leik eða hlaup, horfðu á blómin blómstra og fiðrildin fljúga, snjóinn falla, stjörnurnar skína. Þetta getur verið svo lítið, en er svo ótrúlega stórt.
Ekki bíða eftir rétta augnablikinu til að byrja að lifa, það ert þú sjálf sem gerir augnablikið fullkomið með því að njóta þess.
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.