Fyrir flesta skipta augnhárin miklu máli þegar kemur að fallegri förðun. Hvort sem það er að gefa eigin augnhárum lyftingu, smella á sig gerfi augnhárum eða jafnvel fara í augnháralengingar.
Hvaða leið sem þú velur þér þá get ég sagt þér að þú ert örugglega að gleyma því að hugsa um heilbrigði augnhára þinna. Ég hef sjálf lent í því að missa nokkur augnhár (ehemm.., slatta) og reyni því eftir fremsta megni að passa upp á þau. Persónulega finnst mér einnig ekki almennilega fjallað um það sem skaðar augnhárin og þess vegna langar mig að brýna á þessu.
Augnhárin geta þynnst með aldrinum: Ef þú hefur tekið eftir því að aughárin þín eru ekki eins þykk og þau voru áður, þá gæti það verið rétt hjá þér. Með aldrinum styttist líftími og vaxtarhringur augnháranna rétt eins og gerist við hárin á höfðinu okkar. Líftími augnháranna er að öllu jöfnu 90-120 dagar en vaxtarhringurinn er um sex mánuði. Með öldrun getur líftíminn styst og vaxtarhringurinn lengst, þá vaxa hárin hægar og sum vaxa ekki aftur. Það eru því nokkrir hlutir sem þú gætir verið að gera sem flýta fyrir þynningu augnháranna og síðan augnháramissi.
5 hlutir sem þú gætir verið að gera sem skaða augnhárin!
1. Að nudda augun stanslaust mun á endanum geta haft áhrif á augnhárasekkina.
2. Þó þú nuddir augun ekki oft þá gæti verið að augnhárahreynsi aðferðin þín sé að hafa sömu áhrif – sum okkar átta sig ekki á því hversu miklum þrýsting við beitum. Með því að vera stanslaust að þrífa af augunum getum við haft þau áhrif að við þynnum augnárin eða sum þeirra vaxi ekki til aftur.
3. Að sofa með maskara eru stór mistök! þar sem það þurrkar upp augnhárin og gerir þau stökk.
4. Vatnsheldur maskari er síðan talinn þurrka þau mest af öllum möskurum og í þokkabót þarf meira nudd til þess að ná þeim af. Mælt er með því að ef þú þarft að nota vatnsheldan maskara að nota augnhára primer fyrst til þess að vernda augnhárin. Ég er einmitt háð mínum sem ég nota daglega og er frá Smashbox.
5. Ég persónulega hef einnig minnkað notkun mína á augnhárabrettara í nánast enga til þess að fara betur með augnhárin.
Sumir halda því einnig fram að maskarinn einn og sér geti haft veruleg áhrif á augnhárin með því að vera nota hann daglega. Með því sé líftími augnháranna styttri og þau þorni upp. Augnhárin þurfa því næringu til þess að vinna á móti þurrkinum og mæli ég sterklega með því.
Hint: Flestir Karlmenn og börn nota ekki maskara og eru oftar en ekki með flott sett af heilbrigðum augnhárum!
Hafirðu óvart nú þegar þynnt augnhárin, misst einhver af eða þau orðin veikburða og þurr, þá eru til leiðir til þess að bæta skaðann að einhverju leiti.
Þá vil ég benda á (aftur) að augnháranæringar og serum eru alger snilld, þar með talið augnháraprimerar sem innihalda næringarefni, eins og þessi frá Smashbox sem ég nota daglega, flest snyrtivörumerki selja einnig augnháraprimer svo úrvalið ætti að vera nóg. Í þessum vörum eru prótein og næringarefni sem hjálpa til við að örva augnárasekkina og styrkja augnhárin.
Flest snyrtivörumerki framleiða slíkar vörur og mæli ég hiklaust með notkun þeirra. Sjálf hef ég prufað augnhára serum frá GOSH þegar ég lenti í óhappi með augnhárin mín og fannst mér það svínvirka – mæli með því.
Önnur heimilislegri ráð eru einnig talin virka og er þar með talið að bera Vaseline á augnhárin fyrir svefninn eða bera olíu sem hefur haft sítrónubörk í botninum. Hvorugt hef ég prufað en ég hef prufað að nota kókosolíu til þess að þrífa augun, hef þó ekki endilega séð mun á augnhárunum mínum, en kókosólían þrífur augnfarðann vel af. Einnig eru augnfarðahreinsar sem innihalda olíur alveg æðislegir og eru þeir góðir fyrir viðkvæm augu.
Mikið vona ég að þetta hafi opnað augu þín 😉
[heimild: birdie.com]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.