Ójá kæru námsmenn, hún er enn á ný að ganga í garð þessi blessaða prófatörn.
Það er mjög auðvelt að missa sig í stressi og neikvæðum hugsunum á þessum tíma. Því er gott að gefa sér stund til að anda djúpt og hafa þessi fimm atriði bak við eyrað, svona til að koma í veg fyrir taugaáfall.
1. Reyndu hvað þú getur að forðast stress…
ég veit, ég veit, næstum ómögulegt. Málið er að áhyggjur og stress er tímaeyðsla og gerir ekkert fyrir okkur, eða eins og einhver orðaði svo vel; “Worrying is like a rocking chair. It gives you something to do but it doesn’t get you anywhere”.
2. Næring, svefn og hreyfing.
Oft finnst mér ég ekki hafa tíma til að sinna þessum þremur grunnþörfum þegar ég læri undir próf. Reyndu allavega að nærast og sofa, hreyfing er plús. Þessir þættir hjálpa þér við að halda einbeitingu og stuðla að skarpari hugsun.
3. Pásur.
Staðreynd, þú ert aldrei að fara að halda út 5 tíma samfelldan lestur án þess að missa þráðinn einhverstaðar. Taktu pásur inn á milli, þá eru góðar líkur á að þú fáir ekki ógeð á námsefninu og gefist upp.
4. Náðiru ekki að læra eins vel og mikið yfir önnina og þú ætlaðir þér?
Lestu kennsluáætlunina. Þá sérðu heildarmyndina og áhersluatriðin. Lærðu svo með það til hliðsjónar og leggðu áherslu á aðalatriðin.
5. Gerðu þitt besta.
Forðastu að fara inn í prófið með neikvæðar hugsanir eins og; “Ég mun pottþétt falla”. Reyndu að temja þér jákvætt hugarfar og segðu heldur við sjálfa/n þig; “*Ég ætla að gera mitt besta”.
GANGI ÞÉR VEL!
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.