Það er svo margt í þessu lífi sem við misskiljum í byrjun. Sem unglingar höldum við að við vitum allt og eftir því sem við eldumst gerum við okkur grein fyrir því hversu lítið við í raun vitum.
Hér eru nokkur atriði sem ég var alveg með á hreinu, þangað til annað kom í ljós.
1. Konur grennast við brjóstagjöf.
Nei…. ekki ef þær átu eins og svín á meðgöngu! Ég þurfti að fá matareitrun og púla svo í ræktinni í þrjá mánuði með einkaþjálfara og borða gras til að losna við “meðgöngufituna”. Áminning til verðandi mæðra: borðið hóflega, þetta fer nefnilega ekki af sjálfu sér.
2. Ég þarf að vera fullkomin mamma, dóttir, ástkona, vinkona, starfsmaður.
Það er augljóslega ekki hægt en einhverra hluta vegna var ég mjög lengi að átta mig á að lífið snýst ekki um að gera öllum til hæfis. Það er nóg að gera sitt besta og vera heiðarleg í samskiptum.
3. Ég mun alltaf líta eins út og þegar ég var 19 ára.
Ég veit auðvitað að það er ekki rétt en þegar ég lít í spegil býst ég alltaf við að sjá mig 19 ára. Þegar ég vigta mig miða ég við þyngd mína þegar ég var 19 ára og ég verð alltaf mjög hissa þegar ég sé myndir af mér og átta mig á að ég er ekki eins og ég var árið 1998!
4. Hreinsimjólk, andlitsvatn og rakakrem eru “hin heilaga þrenning” sem nota á tvisvar á dag.
Ég held að auglýsingaherferð Clinique hafi heilaþvegið mig. Ég fór eftir þessu samviskusamlega en alltaf var ég samt með þurrkubletti og bólur, þangað til ég HÆTTI að nota andlitsvatn! Það hefur einfaldlega aldrei hentað mér.
5. Velgengni byggist á heppni.
Það er sannarlega mikilvægt að vera á réttum stað á réttum tíma en það gerist ekkert nema við berum okkur eftir því, velgengni byggist á metnaði, aga og framtakssemi. Ekki eyða tímanum í bið!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.