Það eru fjögur atriði sem ráða úrslitum þegar kemur að því að líta vel út. Ef þú passar ekki upp á þessi 4 þá er hætt við að það vanti eitthvað upp á ferskleikann hjá þér. Atriðin eru hvíld, hreyfing, mataræði og rétt umhirða húðarinnar.
Oft vill það brenna við að fólk leggi mikla áherslu á eitt eða tvö atriðanna en gleymi hinum. Til dæmis er mjög algengt að fólk gleymi því að hvíla sig vel en leggi mikla áherslu á hreyfinguna.
Svo eru þeir sem hreyfa sig mikið og nota það til að ‘leiðrétta’ slæmar venjur í mataræði.
Þá eru konur sem eru duglegar að farða sig en ekki eins duglegar að þrífa og næra húðina og flestar gleymum við hversu mikilvæg hvíldin er bæði sál og líkama.
Íslendingar hafa alltaf lagt mikla áherslu á afköst og vinnusemi en gleyma því að inn á milli er nauðsynlegt að hvíla sig. Ekki einasta þurfum við milli 7-8 klst svefn á hverri nóttu, við þurfum líka að varpa frá okkur áhyggjum af og til, gleyma okkur yfir góðri bók eða náttúrufegurð, leggjast upp í sófa og hvílast í korter, taka svokallaðan ‘bjútíblund’ af og til.
Flestar konur sem komnar eru yfir þrítugt vita það að góður svefn er besta fegrunarmeðalið. Ekki aðeins vegna þess að þannig slaknar á spennunni heldur einnig vegna þess að úthvíld manneskja er mikið betur í stakk búin til að eiga jákvæð og góð samskipti við aðra en sú sem er þreytt og lúin.
Svo skiptir máli hvernig þú vaknar en best þykir að vakna þegar maður sefur laust en ekki upp úr mjög djúpum svefni.
Á þessari stórsniðugu vefsíðu getur þú látið reikna út hvenær er best fyrir þig að fara í háttinn ef þú ætlar að vakna úthvíld og óþreytt næsta morgun. Þú getur líka snúið dæminu við og séð hvenær best er að vakna miðað við háttatímann. Þá er reiknað með að þú sért í um það bil fjórtán mínútur að sofna.
Prófaðu þetta og sjáðu hvort þú átt auðveldara með að vakna í fyrramálið.
[poll id=”41″]Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.