Fyrir þá sem er farið að kitla í tærnar af spenningi að njóta sumarsins er sniðug leið að skella sér á námskeið í líkamsræktarstöð til að koma blóðrásinni af stað og styrkja líkamann.
Til dæmis svo að þú getir í vor borið hjólbörur fullar af mold fyrir sumarblómin, unnið “hjólað í vinnuna” keppnina í eða farið í góða göngutúra í sumarbústaðnum.
Það er nefnilega svo oft þannig að á veturna leggst fólk í hýði og þegar kemur að vorinu góða þá þarf einstaklingurinn að byrja alveg upp á nýtt til að ná þoli síðasta sumars.
Hvernig væri að byrja NÚNA að hreyfa sig ?
Undanfarnar fjórar vikur hef ég verið á námskeiði hjá Hreyfingu, þar sem ég setti mér það markmið að fá aukið þol og hvílast betur ásamt því að uppfylla það markmið að koma vel undan vetri. Ég vil ekki falla í þá gryfju þetta árið að þurfa að byrja upp á nýtt, mig langar að geta haldið áfram frá því sem fyrr varið horfið.
Námskeiðið var fjórum sinnum í viku og er þetta eitt fjölbreyttasta námskeið sem ég hef farið á. Þar kynntust þátttakendur lyftingum í sal, þol- og styrktaræfingum, farið var í yoga tíma og einu sinni í viku voru spinning tímar.
Kosturinn við námskeiðið var að kennararnir voru duglegir að útfæra allar æfingar þannig að hver og ein gat reynt á sig eins mikið og hún gat og voru kennararnir einnig vakandi fyrir því að þátttakendur gerðu æfingarnar rétt.
Í hverjum tíma var létt fræðsla um matarræði og heilsu og virkaði það hvetjandi á hópinn að heyra ýmislegt sem spjallað var um. Engir öfgar voru samt til staðar og var það í höndum hvers og eins hversu langt hún tók matarræðið í gegn. Sumar voru í góðum málum meðan aðrar langaði að breyta til og var þá alltaf hægt að fá aðstoð og ráðleggingar frá þjálfurunum.
Hver var svo árangurinn ?
Ég losnaði við 5cm á magasvæðinu, 3cm á mjöðmunum, 2cm á sitthvoru lærinu og 2cm á höndunum. Frá því að geta gert 3 djúpar armbeyjur (á hnjám) var ég farin að geta gert 3x 10 djúpar armbeygjur (á hnjám), planka á tám (í smá stund), dýpri hnébeygjur, ég fór út að hlaupa 5k eftir langa hvíld, tók fram hjólið mitt og fór í 23km hjólatúr og þegar ég lagðist á koddann á kvöldin sofnaði ég á núll einni!
Ég er ánægð með námskeiðið og strax farin að sakna Spinning tímanna en mér fannst þeir langskemmtilegastir og mest krefjandi. Reyndar gæti ástæðan verið að í þeim tíma fylgdist maður vel með púlsinum sínum og ég gat farið í keppni við sjálfa mig (en það er kannski hugmynd að setja upp námskeið í Hreyfingu sem byggist upp á keppni milli þátttakenda og einhversskonar umbun þannig að keppnisskapið æsist upp í tímunum?).
Yfir það heila mæli ég með því að fólk skelli sér á námskeið til að fá blóðið í gang og Stjörnuþjálfunarnámskeiðið hjá Hreyfingu er alveg með þeim skemmtilegustu.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.