Endurnærð og falleg eftir 4 leiðum
“Þú ert það sem þú borðar” – segir máltækið og mikill sannleikur er fólgin í þessum orðum.
Æ fleiri gera sér grein fyrir áhrifum mataræðis á heilsu og holdafar. Segja má að vitundarvakning hafi orðið á þessu sviði á liðnum árum og næstum má tala um sprengingu síðustu þrjú til fimm ár á Íslandi.
Sífellt fleiri fá áhuga á að sinna mataræðinu með tilliti til heilsufars og staðir á borð við Gló eru fullir út að dyrum á degi hverjum. Þar er meðal annars hægt að fá úrval góðra grænmetis -og kjúklingarétta og mikil áhersla er lögð á fjölbreytni í fersku grænmeti.
Með vitundarvakningunni hafa einnig komið ýmsar nýjungar í heilsugeiranum. Sumum finnst þetta gerast heldur hratt og sumir halda að ef maður kann ekki á chia fræ, lucuma og kakónibbs þá sé maður ekki að borða hollt. Þetta er þó af og frá því flestir vita innst inni hvað er gott fyrir heilsuna og hvað ekki.
Helga Sigurðardóttir, næringarfræðingur, segir mikilvægt að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu til að líkaminn endurnýji sig og starfi sem best. Um leið og það er gert fer viðkomandi að líða betur og jákvæðar breytingar verða á útliti. Hár og neglur styrkjast og húðin fær á sig fallegri ljóma. Helga segir einnig að rannsóknir hafi sýnt fram á að næringarefnin sem við fáum úr fæðunni nýtast líkamanum mun betur en ef þau koma í töfluformi eða með vítamínum.
Er dýrt að borða hollt?
Sumum finnst lífrænn matur heldur dýr og aðrir velta því fyrir sér hvort hann sé komin um of langan veg. Avókadó frá Suður – Afríku er kannski lengi á leiðinni til Íslands og er það þá ferskt þegar það kemur á diskinn okkar hér á Fróni?
“Það sem vex hægar hefur meiri tíma til að þroskast,” segir Helga og bendir á að þetta ætti að vera ágætt viðmið. “Svo eru kostir og gallar líka. Vil ég borða lífrænt epli frá Brasilíu sem kemur um langan veg eða epli frá Danmörku sem er ekki með lífræna vottun en kemur mun styttri leið? Í öllu falli er betra að borða ávexti heldur en að sleppa þeim- hvort sem maturinn er lífrænn eða ekki,” segir Helga og tekur fram að með þessu vilji hún ekki lasta lífræna fæðu. “Grunnhugsunin er að reyna alltaf að borða það sem er næst manni því það er alltaf ferskast,” segir hún.
Hvað erum við að gera rangt þegar kemur að matarinnkaupum?
“Ég myndi halda að við kaupum meira af snakki og kexi en við viljum almennt viðurkenna. Við eigum mörg of mikið af mat og millibita sem er ekki æskilegur sé markmiðið að bæta heilsuna með góðu mataræði. Stundum skipuleggjum við okkur heldur ekki nægilega vel til að eiga nóg af ávöxtum og grænmeti. Það er gott að eiga t.d alltaf tómata og fleira til að grípa í á milli mála. Heilsusamlegt mataræði snýst svo mikið um skipulag, aðgengi og hversu auðvelt það er að nálgast matinn. Til dæmis má ætla að ef það væru fleiri minni verslanir með meiri ferskvöru þá væri auðveldara að nálgast hollmetið og þar með myndum við eflaust borða meira af því.”
Hvað á maður að borða kjöt oft í viku?
“Ef ég miða við hinar ýmsu ráðleggingar þá er talað um rautt kjöt einu sinni í viku, mesta lagi tvisvar. Fisk er gott að borða tvisvar til þrisvar í viku og hvítt kjöt eða grænmetisrétti þess á milli. En athugið að þegar talað er um græntmetisrétti þá verður líka að nota baunir því þær innihalda prótein sem eru líkamanum nauðsynleg,” segir Helga og bendir um leið á að við ættum að breyta venjum okkar þegar kemur að brauði og brauðmeti.
“Við höfum til dæmis ekki nægilega mikið úrval af góðu heilkorna gæðabrauði í búðum hér á Íslandi. Við vildum gjarna sjá meira af því, svona í takt við hefðina á hinum Norðurlöndunum.
Hvað ef við myndum tæma búrskápinn og fylla hann upp á nýtt. Hvað ætti að vera í honum og hvað ekki?
KAUPA
- Grænmeti/Ávexti/Ber (líka frosin)
- Ferska ávaxtasafa
- Fiskiolíu/Lýsi
- Haframjöl
- Hnetur/valhnetur/heslihnetur/möndlur
- Hreina létta AB mjólk/Hrein jógúrt
- Fiskur/kjúklingur/egg
- Harðfiskur
- Niðursoðnir tómatar
- Gróf brauð
- Hrísgrjón
- Hunang
- Góð krydd -en fara varlega í saltið
EKKI KAUPA
- Kex og snakk
- Óhóflegt magn af sælgæti
- Sykraða mjólkurdrykki og smámáltíðir
- Vörur framsettar undir formerkjum heilsu en innihalda samt ótal hitaeiningar (t.d. ýmsir heilsuklattar og þ.h)
- Djúsa og safa gerða úr sykurþykkni
- Gosdrykki
- Mikið unnar kjötvörur
- Skyndirétti
- Pakkarétti
- Áfengi í hófi!
HUGMYNDIR AÐ GÓÐUM RÉTTUM:
- Kjúklingasalat: T.d. kjúklingabringur, avókadó, salat, tómatar, rauðlaukur, jarðhnetur eða furuhnetur, ólífuolía og balsamic edik.
- Vefjur: Hægt er að gera allskonar tortilla vefjur með grænmeti og kjúklingi, hummus, sætkartöflum eða öðru góðgæti.
- Fiskur: Léttsteiktur fiskur með góðu kryddi, salsasósu og léttsýrðum rjóma er auðveld matargerð.
Að lokum er hér listi af mat sem er sérlega góður fyrir húð, hár og neglur:
Möndlur -seðjandi, E vítamínríkar og góðar fyrir húðina
Bláber – ofurfæða full af andoxunarefnum
Lax (og annar feitur fiskur) – hátt hlutfall af Omega 3 og D vítamínum
Spergilkál – ríkt af C vítamínum, andoxunarefnum og steinefnum
Spínat – ríkt af A og C vítamínum
Jarðarber – ríkt af C vítamínum og andoxunarefnum
Tómatar – ríkir af andoxunarefnum og flavínóðum
Rauðbeður -ríkt af andoxunarefnum
Grænkál – ríkt af flavínóðum, andoxunarefnum og steinefnum
Melónur – geta losað um bjúgmyndun, ríkar af A og C vítamínum og fleiri andoxunarefnum
Aspas – ríkt af A, K og B vítamínum og getur losað um bjúg
Gulrætur – ríkar af A vítamíni
Munum að það er líka betra að borða ávöxtinn en að gera safa úr honum því þannig fáum við einnig trefjarnar!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.