Þrjár sekúndur er spennusaga eftir sænsku höfundana Roslund og Hellström.
Þetta er ekta skandinavískur krimmi. Það eru bófar, löggur og vandamál sem þarf að leysa en líka þessi hverdagslegu vandamál sem við öll glímum við eins og hver á að sækja börnin og hver á að elda? …og stærri vandamál eins og hvernig nærðu tökum á sorginni eða lætur þú hana buga þig?
Í bókinni 3 sekúndur segir frá tveimur lögreglumönnum. Piet Hoffmann er flugumaður sænsku lögreglunnar og vinnustaðurinn hans er pólska mafían enda er hann hálfpólskur og talar bæði pólsku og sænsku. En svo fær hann tækifæri til að klekkja á mafíunni í eitt skipti fyrir öll og þá er að finna hver stendur með honum og hver ekki.
Ewert Grens er lögga sem leitar að morðingja. Ewert er gamall fauskur, skapstirður með eindæmum og hann lifir, eða kannski má segja að hann lifi ekki, í skugga konu sinnar sem hafði slasast við skyldustörf 29 árum áður og verið út úr heiminum síðan.
Ewert reiðist og orgar á fólk, hann á enga vini, enga fjölskyldu og hann sefur á sófanum á skrifstofunni. En hann gefst ekki upp ef hann finnur slóð til að fylgja eftir og þolir ekki að þurfa að skilja mál eftir óupplýst.
Það gerðist ekki neitt og svo BAMM
Ég las þessa bók, eða öllu heldur ég byrjaði á þessari bók og hætti svo af því það gerðist bara ekki neitt. Tók hana aftur upp þremur dögum seinna og enn gerðist ekki neitt. Lagði hana frá mér og
ákvað svo að gefa henni einn séns, fletti við síðu og þá bara gerðist það.
Ofsaleg spenna og tenging eftir langa bið
BAMM, sagan byrjaði með þvílíkri spennu að ég gat ekki hætt fyrr en ég kláraði bókina. Af hverju hins vegar það þurfti nærri tvö hundruð blaðsíður til að koma mér á þennan spennustað get ég ekki alveg skilið. Það er einhver lenska í dag að skrifa rosalega langar bækur (ekki misskilja, ég elska langar bækur) og margar þeirra missa þá eitthvað í staðinn.
Hér er aðdragandinn orðinn alltof langur. Mér var alveg sama um Piet og hans raunir, hvort börnin hans voru veik eða ekki, það bara snerti mig ekki. Síðan bara smellur eitthvað og allt einu get ég bara ekki beðið eftir að sjá hvað gerist og fæ fulla samúð með honum. Það sama með Ewert leiðinda karlinn. Ég var farin að hugsa, æi góði farðu og leitaðu þér hjálpar eða hættu í löggunni eða bara eitthvað „geisp“. En það sama með hann, ég fór að finna til með honum og hans barátta orðin að minni baráttu.
Þetta eru tveir höfundar og það er hreinlega eins og þeir hafi skipt með sér verkum. Annar skrifar formálann (óvenju langur formáli) og hinn fær spennuna þegar búið er að kynna til leiks þá sem eiga að vera með. Mér finnst sagan líða fyrir þetta og ég veit að skiptingin er eflaust ekki svona einföld hjá þeim, en þetta virkaði alla vega svona á mig.
Niðurstaða: Þetta er 600 blaðsíðna bók og það tekur hana hátt í tvöhundruð að verða að þessari brjáluðu spennusögu sem auglýst er, en að vísu verður hún þá líka rosalega hjartstoppandi spennandi. Gæti alveg trúað að þeir sem hafa smá athyglisbrest nái ekki að komast yfir þennan langa formála og missi þar af leiðandi af þessari spennu. Ég get ekki gefið henni meira en þrjár og hálfa stjörnu þar sem ég var næstum búin að gefast upp á henni í byrjun. En stjörnurnar fær hún fyrir síðustu 400 síðurnar.
Þrjár og hálf stjarna [usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.