kalmar

 

Lúðvík Kalmar Víðisson, sýnir blýantsteikningar af Óþekktum andlitum á Mokka frá 16. júní til 20. júlí.

Í fréttatilkynningu sem okkur barst frá listamanninum segir þetta:

„Lesa má margt úr andlitum og svipbrigðum fólks. Augað er mjög næmt á að skynja minnstu frávik sem gerir okkur kleift að bera kennsl á aðra og móta okkur skoðanir á persónunni, jafnvel án þess að þekkja viðkomandi. Tilgangur þessara mynda var að skapa persónur án þess að notast við nokkrar fyrirmyndir eða annað til að styðjast við og gefa því áhorfandanum tækifæri á að mynda sér sína eigin skoðun á hver persónan á myndinni er.”

Ferill Lúðvíks hófst í Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 1984, þá var hann 8 ára. Þar fór hann á ótal námskeið í þau 12 ár sem hann stundaði þar nám, allt frá barna og unglingadeildum yfir í grunnteikningu, módelteikningu og leirnámskeiða svo eitthvað sé nefnt.

Lúðvík útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands  2002 með BA gráðu í grafískri hönnun, þaðan fór hann beint til London þar sem hann tók MA gráðu í Interactive Digital Media 2005 og hefur unnið hjá CCP sem concept artist síðan.

Sýningin er sölusýning, opið daglega frá 9.00-21.00 á opnunartíma Mokka.