Elva Björg Einarsd

Barðastrandarhreppur göngubók er ný göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur. Elva gefur bókina út sjálf og hefur unnið mikið þrekvirki með útgáfu hennar.

Á hverju sumri verð ég að eignast nýja göngubók, þetta er að verða eins konar upphaf sumarsins hjá mér. Göngubókin Barðastrandarhreppur er klárlega göngubókin í ár og hún er fyrsta sinnar tegundar í göngubókasafninu mínu.  Þetta er engin hefðbundin bók heldur er þetta margslungið margmiðlunarverk og er þar að auki mjög falleg.

Bók sem á að fylgja þér

Það er mikið lagt í bókina um Barðaströnd. Kápan er fallega gul og harmonerar þannig við skófarliti í náttúrunni en mikið er af skófum á Breiðafjarðareyjum. Guli liturinn kallast einnig á við litina í göngukortunum og gleður þannig augað. Bókin er mjúk, strigaklædd og auðvelt að beygja hana og móta enda segir höfundur að þetta sé bók sem eigi að faðma að sér og hafa alltaf með í för. Hún eigi að vera hluti af ferðinni, ekki sparibók í hillunni. Í kápuna eru síðan þrykktar gönguleiðirnar sem fjallað er um í bókinni og ef maður lokar augunum og strýkur laust eftir leiðunum er auðvelt að ímynda sér að maður sé lagður af stað í göngu.

Barðastrandarhreppur

Barðaströndin og barnaströndin

Þetta er ekki lítil bók því með heimildum er hún 328 blaðsíður. En hver síða er stútfull af fróðleik um Barðaströndina og bæina sem þar standa og jafnvel þá sem ekki lengur standa. Sögur og fróðleikur, vitnað í gamlar sögur og ljóð og ef vel er gáð þá leynast jafnvel uppskriftir inn á milli.

Gönguleiðirnar eru merktar eftir erfiðleikastigi og sérstaklega merktar ef þær eru barnvænar. Höfundur nefnir t.d. að auðvelt sé að uppnefna Barðaströnd sem Barnaströnd því þar er mikið aðdráttarafl fyrir börn. 40 km löng strandlengjan þakin gulum sandi (aftur er það guli liturinn) og heitur sjórinn á góðum sólardegi.

GöngukortYndisleg göngukort

Bókinni fylgir göngukort sem hægt er að kaupa með bókinni eða sér. Kortið teiknaði Kristbjörg Olsen myndlistarkona og vildi hún að fólk finndi á eigin líkama hversu langur hreppurinn er. Kortið er í fullri lengd, 21×160
cm og leggst í harmonikku en þegar það er útdregið að fullu er það eins og einn faðmur að lengd. Bók og kort kalla þannig í sameiningu á ákveðna upplifun hjá lesanda. Aftan á kortinu eru lýsingar á 12 gönguleiðum á íslensku og ensku.

Bjargirnar þrjár

Það er einnig skemmtilegt að segja frá því að þetta verk er unnið af þremur konum sem allar bera nafnið Björg. Þannig er höfundur og eigandi Elva Björg Einarsdóttir, Kristbjörg Olsen teiknar kortin og Björg Vilhjálmsdóttir hannar útlit. Bókin er 328 blaðsíður og var gefin út í júní 2016.

 

bokogkortNiðurstaða: Mjög falleg og skemmtileg göngubók sem hægt er að skoða og lesa aftur og aftur og alltaf finna eitthvað nýtt. Dagleiðir eða lengri leiðir, hérna ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Kortið er síðan listaverk út af fyrir sig og myndi sóma sér vel hangandi á vegg þegar ekki er verið arka með það úti í náttúrunni.

Það er ekki hægt annað en gefa þessari bók fimm stjörnur því uppsetning og útlit, helst í hendur. Ef göngubók má vera konfekt þá er þetta ekta konfektmoli

Fimm stjörnur  (5 / 5)