Sankta PsykoHælið – Sankta Psyko er nýleg spennusaga eftir sænska höfundinn Johan Theorin.

Bókin fjallar um Jan Hauger, leikskólakennara, sem ræður sig í afleysingarstarf í leikskólann Rjóðrið, sem reynist svo ekki vera neinn venjulegur leikskóli. Rjóðrið er við múra Sankta Patricíu-öryggishælisins þar sem alvarlega geðtruflað og hættulegt fólk er vistað. Börn sjúklinganna eru í Rjóðrinu til þess að geta ræktað tengslin við foreldra sína. Meðal almennings gengur Sankta Patricía undir nafninu Sankta Psyko.

Með leyndarmál í farteskinu

Jan Hauger er einfari og hann ræður sig á Rjóðrið með því markmiði einu saman að komast inn á öryggishælið en það er hægara sagt en gert. Hann burðast með ýmis leyndarmál í fararteskinu sem virðast mis alvarleg en eitt þeirra varðar hvarf lítils drengs sem hvarf úr umsjá Jans níu árum áður en saga þessi gerist.

Maður er með öndina í hálsinum

HæliðÞetta er sálfræðitryllir af bestu gerð. Jan er mátulega klikk til þess að maður fylgist með honum með öndina í hálsinum. Hvað með börnin, mun hann gera eitthvað sem skaðar þau? Hver er þessi kona sem hann er sífellt að hugsa um?

Samstarfskonur hans eru hver annarri furðulegri og búa yfir sínum leyndarmálum og yfir öllu vakir Sankta Patricía með harðlokuðum dyrum, rimlum fyrir gluggum og snargeðveikum föngum sem margir hverjir hafa mörg morð á samviskunni.

Þráhyggja á háu stigi

Jan virðist vera besta skinn, hann er að vísu einfari og virðist ekki reyna að tengjast öðru fólki en hann nær góðu
sambandi við börnin og það er jú það sem starf hans snýst um. En hann er með þráhyggju á háu stigi og hugsar ekki um annað en söngkonuna Alice Rami. Líf hans virðist snúast um hana og ekkert annað. Allt sem hann gerir snýst um það að komast nær henni á einhvern hátt.

Niðurstaða

Þetta er spennusaga af þeirri gerð sem ég kann að meta. Ágætur hraði, mátulega klikkaðar persónur og svo þessi undirliggjandi ógn sem stafar að börnunum. Það er alltaf einhvern veginn óhuggulegra þegar börn koma við sögu. Jafnvel þó það sé bara verið að tala óljóst utan að einhverju sem maður áttar sig ekki alveg á. Ég gef henni fjórar stjörnur.

Bókin kom út 2016 hjá Uglu og er 384 blaðsíður. Fjórar aðrar bækur hafa áður komið út á íslensku eftir Johan Theorin.

Niðurstaða: Mjög spennandi saga sem er enn meira spennandi vegna barnanna og nálægðar við geðveika afbrotamenn sem hafa mörg mannslíf á samviskunni . Fjórar  (4 / 5)