arelia
Árelía Eydís við störf sín, myndin er fengin að láni hjá mbl.is

Tapað fundið er ný bók eftir hana Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Þetta er fyrsta skáldsagan hennar en áður hefur hún gefið út tvær bækur sem fjalla um leitina að sjálfum sér og að finna köllun í starfi.

Mér finnst Árelía Eydís afskaplega skemmtileg kona en í gegnum árin hef ég setið marga skemmtilega fyrirlestra sem hún hefur haldið. Það var því ákveðin tilhlökkun í gangi þegar ég opnaði bókina og hóf lesturinn. Bókin er samt aðeins öðru vísi en ég reiknaði með. Ég var smástund að koma mér í gang, fannst byrjunin frábær, miðkaflinn la, la en svo tókst hún á flug og ég lokaði bókinni sátt.

Halla Bryndís er lögfræðingur og formaður slitastjórnar, í flottri dragt á leiðinni á fund í London. Getur lífið orðið nokkuð leiðinlegra? En þá verður hún fyrir því óláni að taka ranga tösku á flugvellinum, hella yfir sig rauðvíni og eiga engin föt nema í töskunni góðu. Hana á kona sem illu heilli er í sama númeri og Halla en í allt öðrum stíl. Hún er í litum og kjólum, þar sem Halla er í drögtum og svörtu.  Þarna hefst nýr kafli í lífi Höllu Bryndísar og hún fer í gegnum ákveðið uppgjör við líf sitt og tilfinningar. Hittir gamla vini og les dagbók annarar konu.Tapad-Fundid

Það er rómantík í þessari bók, dálítið gamaldags rómantík en ekki erótík eða brjálaðar kynlífssenur. Miklu frekar kertaljós og rauðvíns rómantík þar sem fólk daðrar og nýtur lífsins en er ekki allan tímann að hugsa um hversu fljótt það nær að skella sér í rúmið saman. Þarna eru samtöl og áhugavert fólk, áhugaverðir og rómantískir staðir.

Sumar bækur eru sumarbækur (vá hvað þetta var flott hjá mér!) og þetta er klárlega ein af þeim. Þú lest hana, skoðar aðeins líf þitt í öðru ljósi og kannski lítur þú í kringum þig og finnur nýjan neista í því sem þú ert að gera, hvort sem það er ástarsambandið eða vinnan. Það eru nefnilega ekki hinir sem eiga að sjá um að skemmta þér, heldur verður þú að leggja þitt af mörkum. Þetta er tilfinningin sem ég fékk eftir lestur þessarar bókar og nú ætla ég að fara og leita mér að rauðum kjól og kannski finna mér góðan stein sem gefur mér fallega orku.

Ég ætla að gefa þessari bók þrjár og hálfa stjörnu og vona að Árelía Eydís láti ekki of langt líða þar til hún gefur út næstu bók.

  (3,5 / 5)