o-BUYING-GUIDE-facebook

Eftir því sem það hefur orðið auðveldara að tengjast fólki og viðburðum um heim allan hefur afsökunum manns fyrir því að vera ekki ábyrgur neytandi fækkað óðfluga.

Þú þyrftir að vera hellisbúi til að átta þig ekki á því hversu illa við erum að fara með jörðina okkar og hversu hræðilegar afleiðingarnar af eigingjörnum lifnaðarháttum okkar geta orðið. Sem betur fer er nóg af góðu fólki að vinna að því að gera heiminn betri og því sjáum við alls konar herferðir fara reglulega af stað.

Ein af þessum herferðum sem ætlað er að koma af stað vitundarvakingu á meðal fólks er Fjölnota í febrúar.

Verkefnið er hugsað til þess að hvetja fólk til að nota fjölnota burðarpoka í febrúar í hvert sinn sem farið er að versla, sama í hvernig verslun farið er.

Það er um það bil ár síðan ég fór að gera þetta og í dag er staðan sú að ég fæ samviskubit ef ég fer að versla í matinn og gleymi að taka fjölnota pokann með mér. Á vefsíðu átaksins er hins vegar verið að deila alls konar góðum ráðum og var t.d. bent á það að setja fjölnotapoka í handtöskuna eða í hanskahólfið á bílnum svo það gleymist ekki en þar geymi ég nú aukapokann minn.

Það má ekki gleyma því hversu miklu viðhorf okkar skiptir máli. Ég var undrandi þegar ég áttaði mig á því hversu auðvelt það er að sleppa notkun plastpoka – vera bara alltaf með taupoka með sér, jafnvel þegar farið er að versla fatnað eða annað og nota maíspoka í ruslið – en þegar ég fór að versla föt um daginn þá fannst mér svo bjánalegt að afþakka poka í versluninni og nota minn eiginn í staðinn að ég þorði því hreinlega ekki. Hversu klikkaður er maður?

Auðvitað skiptir það engu máli hvernig maður lítur út með pokann á handleggnum eða hvað fólki finnst almennt um útlit manns og atferli. Það sem þarf að breytast er hvernig hugsað er um hlutina.

Hugsum um umhverfið og gerumst ábyrgir neytendur eða eins og sagt er í átakinu: Hver poki skiptir máli – það sem þú gerir skiptir máli.