model_128

Ef þú eyðir einhverjum tíma á samfélagsmiðlum þá ættir þú að hafa rekist á myndir af Tess Munster en hún er sú fyrsta sinnar stærðar sem hefur skrifað undir samning við stóra módelskrifstofu.

Tess Munster er 165 sentimetrar á hæð og er í US stærð 20 sem er langt frá þeim stöðlum sem önnur súpermódel þessa heims heyra til.

Hún bjó til hashtaggið #effyourbeautystandards, sem er með yfir 500.000 myndir tengdar á Instagram, til að styrkja sjálfsmynd kvenna um heim allan og segir hún að þetta uppátæki hafi gjörsamlega breytt lífi hennar. Þegar hún var yngri var hún lögð í einelti útaf líkama sínum en í dag notar hún þennan sama líkama til að hvetja fólk til elska sig sjálft, sama af hvað stærð eða gerð það er. Og án þess að draga það eitthvað meira þá má segja að hún sé svo sannarlega komin á toppinn í lífinu.

En afhverju er þessi fallega, feita kona, sem vill styrkja sjálfsmynd okkar allra að fá svona mikið hatur í sinn garð? Af hverju á fólk svona erfitt með að sætta sig við feita, hamingjusama, farsæla konu?

model_123

Margir skrifa ljóta hluti um hana. Virkilega ljóta hluti. Aðrir skrifa að hún sé ekki heilbrigð fyrirmynd því fólk í yfirvigt eigi við mörg heilsufarsvandamál að etja og að hún sé að hvetja til offitu. En spurningin er… hefur fólk virkilegar áhyggjur af hennar heilsufari eða vill það bara skýla sér bak við þessar athugasemdir til að líta ekki eins illa út þegar það dæmir hana?

model_072Ég las ofboðslega góða grein sem mér fannst hitta naglann beint á höfuðið. Hún útskýrði þetta eitthvað í þessa áttina.

Okkur er kennt frá blautu barnsbeini að okkar virði sé beintengt við hvernig við lítum út. Við getum kallað þetta líkams-virði. Við eyðum milljónum og endalausum tíma til að breyta og bæta og láta okkur líta vel út til að auka líkamsvirði og þar af leiðandi auka hamingju okkar.

Við trúum því að um leið og mittið er minna, brjóstin stærri og nefið beint þá, og einungis þá, munum við verða hamingjusöm til æviloka. Amen.

Nú vilja eflaust margir fussa og þykjast ekkert kannast við þetta en fegrunar-geirinn og allar trilljónirnar sem hann veltir, talar sínu máli.

Svo birtist þessi feita fegurðardís og segir:

„Ég er feit og ég er hamingjusöm.’’

Hún stökk fremst í hamingjuröðina. Svindlaði sér framhjá öllum mittismjóu, brjóstastóru skvísunum með beinu nefin. Hún sleppti öllum skrefunum sem svo margir eyða megni lífsins í (ræktina, kremin, aðgerðirnar) og sagði strax ég er hamingjusöm.

Hún ýtti öllum sem lögðu hana í einelti til hliðar og sagði ég er hamingjusöm. Viðbrögðin hafa heldur betur ekki látið á sér standa. Fólkið sem er núna komið fyrir aftan hana í hamingjuröðinni vill ekki láta hana komast upp með þetta. Þessi ósvífni! Það vill enginn sætta sig við að öll vinnan og peningarnir sem það hefur lagt í að finna (fallegu!) hamingjuna hafi verið til einskis. Það vill enginn horfast í augu við þá staðreynd að þú hafir frá upphafi getað ákveðið að fara fremst í röðina og ákveðið að vera hamingjusöm/samur á þínum forsendum.

Screen Shot 2015-02-04 at 16.33.20Burt séð frá heilsukvillum, sem við vitum ekki einu sinni að séu til staðar og sem koma engum við nema henni sjálfri, þá er löngu kominn tími á að við einbeitum okkur að okkur sjálfum. Hvað ef að þeir sem hvað hæst heyrist í, myndu eyða allri þeirri orku sem þeir eyða í að dæma og rífa aðra niður?

Hvað ef sú orka yrði notuð í að elska, elska sinn eiginn líkama, elska allt það sem einhver annar hefur kallað ljótt eða vitlaust eða skakkt. Elska allt það feita, mjóa, langa, stutta, stóra, litla á þínum líkama. Þá væru miklu fleiri komnir fremst í hamingjuröðina.

Það er nóg pláss fremst í röðinni. Það er löngu kominn tími til að við hættum að dæma. Það er löngu kominn tími til að við lærum að elska okkur sjálf og líkama okkar. Það er löngu kominn tími til að við lærum að elska aðra sama hvernig líkaminn þeirra lítur út.

Því eftir allt þá erum við ekki líkaminn okkar. Þú ert og verður alltaf manneskjan þú, sama hvernig ástandið á líkamanum þínum er og verður.