Screen Shot 2014-11-13 at 20.01.32Náðarstund er með sanni einhver sú merkilegasta saga sem ég hef lesið síðustu árin. Hún er í senn stórkostlega vel skrifuð, stútfull af innsæi og fallegu málfari þýðandans en á sama tíma meistaralega samin og það magnaða er að hér er um frumraun rithöfundarins, hinnar áströlsku Hönnuh Kent, að ræða.

Sagan er í megindráttum sönn en hún fjallar um síðustu aftökuna hér á Íslandi þegar þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru aflífuð fyrir morðin á Nathani Ketilssyni og Pétri Jónssyni.

Náðarstund er þó fyrst og fremst tilraun höfundarins til að segja sögu Agnesar. Konu sem var eflaust eins og margar íslenskar konur á þessum tíma, umkomulaus, með ekkert bakland, bara manneskja að reyna að lifa af á þessum hjara veraldar sem Ísland hefur verið fyrr á öldum.

Það líður varla sá dagur, og sérstaklega nú í skammdeginu, að mér verði ekki hugsað til forfeðra okkar og ég velti því fyrir mér hvernig bláfátækt fólk fór eiginlega að því að lifa af hérna án þess að hafa rafmagn í húsum og hita. Hver einasti dagur hefur verið barátta og oft upp á líf og dauða. Fólk eignaðist sumt mörg börn en missti þau flest því lífsskilyrðin voru einfaldlega ekkert sérlega góð. Þvert á móti.

Höfundinum tekst með ótrúlegum hætti að draga upp mynd af lífi íslendinga í upphafi 19. aldar og svo skýr verður þessi tilvera að manni finnst maður sannarlega staddur á árinu 1829 og hver einasta persóna jafn raunveruleg og fólk sem við þekkjum og tölum við í dag.

Myndin sem er dregin upp af Agnesi er full af innsæi í mannlegt eðli. Hún er hvorki grimm né góð, hún er bara eins og við öll, bæði.

Þegar sagan hefst hefur Agnes verið dæmd og hún bíður þess að deyja. Það er farið með hana af Stóru Borg yfir á bæinn Kornsá þar sem hún er höfð hjá hreppstjóranum og konunni hans, Margréti, meðan allir bíða þess að dagsetningin um hvenær aftakan skuli fara fram verði tilkynnt.

Á þeim tíma sem líður frá því að Agnes kemur að Kornsá og þar til hún er tekin af lífi, fær hún sálusorg hjá ungum presti og eignast vinskap við Margréti. Í gegnum frásagnir hennar og upplifanir bæði prestsins, húsmóðurinnar og annara persóna fær lesandinn að kynnast Agnesi, hugsunum hennar og lífi frá fæðingu og fram að dauðastund.

Þetta ferðalag er bæði dimmt, kalt og nöturlegt en á sama tíma svo heillandi að það er með ólíkindum.

Það var svo margt sem ég dáðist að við lesturinn, ekki bara færni rithöfundarins og hversu stórbrotin frumraun hennar er á sviði skáldsagnalistarinnar. Þýðing bókarinnar er jafnframt framúrskarandi góð. Svo góð að manni finnst eiginlega magnað að hún hafi yfirleitt verið samin á annað tungumál.  Jón St. Kristjánsson þýddi bókina en hann, líkt og höfundurinn, lagði á sig mikla rannsóknar -og heimildavinnu til að lokaútkoman yrði sem best og á hann mikinn heiður skilið fyrir sitt framlag.

Það er eitthvað sem heillar mig sérstaklega við að lesa um líf og aðstæður Íslendinga fyrr á öldum en ég hugsaði oft til sögunnar um Bjarna-Dísu eftir Kristínu Steinsdóttur meðan ég las Náðarstund (um hana skrifaði ég hér á Pjattið fyrir tveimur árum).

Þú þarft samt ekki að hafa neitt sérstakt ‘thing’ fyrir fortíðinni hér á klakanum, það er nóg að hafa áhuga á eðli mannsins, samskiptum kynjanna, fallega skrifuðum texta og háklassa afþreyingu til að njóta þess að lesa þessa sögu.

Sjálf mun ég lesa hana aftur en það er aðeins í þessari, og Brennu-Njáls sögu, sem ég hef undirstrikað orð og setningar sem ég hreifst svo af að ég kjamsaði á þeim hægt og rólega eins og 70% súkkulaði með heimsins besta rauðvíni. Til dæmis:

“Það var ekki fyrr en síðar að orð okkar settu af stað skriður og við sátum föst í glufunum milli þess er sögðum og þess er við meintum og sáum ekki lengur til hvors annars, treystum ekki orðunum af okkar eigin vörum.”

Þvílík snilld!

Náðarstund er að mínum dómi alveg einstakt verk. Ég gef henni fimm af fimm. Fullt hús.

(5 / 5)

Ps. Ég hvet þig líka til að lesa Náðarstund áður en myndin kemur frá Hollywood en frést hefur að Jennifer Lawrence úr Hungurleikunum eigi að leika Agnesi. Meira um höfundinn Hönnuh Kent getur þú lesið hér og meira um Agnesi og Friðrik hér.