Jóhanna Kristjónsdóttir

Svarthvítir dagar eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur fjallar um æskuár hennar í Reykjavík á árunum 1940-1956. Hún segir þar frá fjölskyldu sinni og vinum fjölskyldunnar á notalegan og þægilegan hátt.

Ég uppgötvaði í fyrra hvað mér þykir skemmtilegt að lesa um Reykjavík fyrri tíma. Hvernig fólk lifði, lýsingar á staðháttum og fatnaði. Þessi bók fjallar um Reykjavík og fólkið sem í henni bjó á þessum tíma.

Hún fjallar líka um fólkið í sveitinni hennar Jóhönnu og hvernig vinnubrögðin voru. Þetta er svona nostalgía og ég t.d. datt aftur í sveitina til ömmu minnar og afa og naut þess að ylja mér á endurminningum sem ég átti frá þeim tíma.

Ég kannaðist við sumt af fólkinu sem hún lýsir og hvarf í minningunni örskot aftur í tímann, í bekkinn til Axels kennara í Melaskólanum en hann var föðurbróðir Jóhönnu. Það er alltaf gaman að lesa bækur um stéttlausa Ísland þar sem stéttarígur hefur grasserað frá fyrstu tíð. Að lesa um fína fólkið og fólkið sem ekki var eins fínt og hvað það var í rauninni lítið sem oft skildi á milli.

Kannski bara teppi á gólfinu. Þéringar kennara og hvernig börn voru send til kennara áður en þau fóru í skóla þannig að þau kæmu vel undir búin í skólann. Einnig kemur hér enn og aftur lýsingar á því að betri heimili voru með vinnustúlkur.

Leikir barnanna á þessum tíma, leikaramyndir og Jóhanna bætti um betur og var með bók þar sem hún safnaði eiginhandaráskriftum þeirra sem á vegi hennar urðu. Sumir frægir, aðrir ekki eins frægir. Skemmtilegt að lesa hvernig mamma hennar hjálpaði henni við þessi áhugamál og sendi jafnvel úrklippur úr blöðum í sveitina á sumrin.

Mér fannst þetta mjög skemmtileg og hlý bók og ég las hana í einum rykk. Hún er þægilega skrifuð og skemmtilegar mannlýsingar og gefur ágæta innsýn í líf og störf fólks í Reykjavíkurborg á árum áður. Ég ætla að gefa henni fjórar og hálfa stjörnu.

(4,5 / 5)

Svarthvítir dagar