spelt

 

Það getur alveg gert gæfumuninn að eiga gott millimál til að grípa í yfir daginn.

Þetta hrökkbrauð smakkast vel, er frábært með kaffinu, í morgunmat eða nesti hvenær sem er yfir daginn. Hefur góð áhrif á meltinguna og er flottur valkostur í staðinn fyrir venjulegt brauð. Settu kotasælu og gúrku eða annað gott álegg á þetta hrökkbrauð og njóttu í botn. Auðvelt og fljótlegt að útbúa.

INNIHALD

1¾ dl spelti
½ dl gróft haframjöl
½ dl graskersfræ
½ dl hörfræ
½ dl sesamfræ
½ dl sólblómafræ
½-¾ teskeið fínt sjávarsalt
1 dl vatn
2 matskeiðar (30 ml) góð olía

AÐFERÐ

Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið með sleif eða sleikju þar til þið hafið linan massa.

Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið deigið á pappírinn, setjið því næst bökunarpappír yfir deigið og fletjið það út með kökukefli (þið getið svo lagað endana með fingrunum ef þið þurfið).

Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég nota pizzaskera og svo rétt aðeins sting ég í hverja sneið með gaffli)
Bakið í blástursofni við 200°C í 15-20 mínútur, fer eftir því hversu dökkt og stökkt þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég baka það í 20 mínútur).

Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi svo það verði ekki seigt og njótið vel.