Cry-Baby
Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.

Johnny Depp var fyrsta Hollywood ástin mín og þess vegna varð ég auðvitað að leigja allar myndirnar sem ég fann með honum á leigunni sem ég fann og þeirra á meðal var Cry-Baby sem alla tíð síðan hefur verið í uppáhaldi, hún er meira að segja ein af þeim fáu myndum sem ég hef keypt mér á DVD nú í seinni tíð þar sem ég verð eiginlega bara að eiga hana í „föstu formi“.

Cry-Baby (1990) er svolítið eins og Grease á sterum og slatta af ofskynjunarlyfjum. Hún fjallar um Cry-Baby (Johnny Depp) og „drapers“-gengið hans. Cry-Baby verður skotinn í Allison (Amy Locane) sem er „square“ og það rústar öllu félagsskipulaginu í skólanum sérstaklega þar sem Allison á mjög afbrýðssaman kærasta.

Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Cry-Baby:

Það að vísu ætti enginn að þurfa fleiri ástæður en þessa hér en samt…

1. Traci Lords

Hún þolir víst ekki að vera kölluð fyrrverandi klámmyndaleikkona en hún er samt sem áður mjög þekkt fyrir að vera sá klámmyndaleikari sem gekk best að skipta úr klámmyndunum yfir í kvikmyndaferil og leik í sjónvarpi. Í Cry-Baby er hún algjör snilld.

2. Ramona Rickettes

Eða amman.

3. Söngatriðin

Ég er alltaf með veikan blett fyrir söng- og dansatriðum í kvikmyndum, því hallærislegri því betra.

[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=8T–XIWND6k[/youtube]

John Waters, sem skrifaði og leikstýrði myndinni, er ekki beint þekktur fyrir að leikstýra hefðbundnum kvikmyndum en aðdáendur hans eru samt mjög margir.  Cry-Baby er líklega sú kvikmyndanna hans sem flestir kannast við fyrir utan Hairspray. Hún er svo fáranleg að hún er skemmtileg, og það er alveg þess virði að horfa á hana bara til þess að komast að því hversu virkilega fáranleg hún er.

Skemmtilegar staðreyndir um Cry-Baby:

  • Johnny og Amy syngja ekki sjálf í myndinni.
  • Tom Cruise, Robert Downey Jr. og Jim Carrey komu allir til greina í aðalhlutverkið í myndinni. Johnny Depp var valinn eftir að John Waters keypti helling af unglingablöðum til að hjalpa sér við valið og Johnny Depp var framan á næstum öllum þar sem hann var stjarnan í 21 Jump Street.
  • Drew Barrymore kom til greina í hlutverk Allison.
  • Ekki missa af Willem Dafoe í algjöru aukahlutverki sem er samt svo ógleymanlegt: „It’s beddy-bye time“.

Næst þegar þú ert í skapi fyrir að sjá eitthvað alveg gjörsamlega frábrugðið flestu öðru sem þú hefur séð og er samt á sama tíma fyndið og skemmtilegt, skelltu þá Cry-Baby á!

Ef þú fílar ekki „öðruvísi“ myndir þá mæli ég með að þú horfir á þetta GIF í 85 mínútur í staðin…

[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=JiRa7qrL5rY[/youtube]