Kate Moss er steingeit.

Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.

Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann, fiskinn, hrútinn, nautið, tvíburann, krabbann, ljónið, meyjuna, vogina, sporðdrekann og bogmanninn. Hér kemur steingeitin.

Steingeitin 22. desember – 19. janúar

Það er sama á hvaða sviði steingeitin starfar, hún mun alltaf reyna hvað hún getur til að komast á toppinn. Það sem drífur hana áfram er að ná völdum, komast aðeins hærra upp metorðastigann og bæta þannig félagslega stöðu sína. Að klífa upp metorðastigann snýst ekki um peninga hjá steingeitinni, það eru aðallega völdin, að fá að stjórna, sem vekur áhuga hennar.

Störf sem krefjast skipulagshæfileika og eru unnin á bak við tjöldin henta henni lang best og ekki skemmir fyrir ef starfinu fylgir mikið vinnuálag og gerir henni kleift að vera eins lengi í vinnunni og hún getur, steingeitur eru vinnualkar.

Steingeitin getur líka tekið erfiðar ákvarðanir t.d. er varða niðurskurð vegna þess að steingeitin er tilfinningabæld og ekkert væmin. Því mun steingeit innan læknastéttarinnar að öllum líkindum verða yfirlæknir.

Frægar steingeitur: Anthony Hopkins, Kate Moss og Dr. Martin Luther King.