Screen Shot 2014-08-29 at 21.04.43

Ég er sérleg áhugamanneskja um skonsugerð, eða pönnukökugerð ef við viljum kalla þetta það og því hollari sem þær eru því betra.

Mér finnst nefninlega svo gott að geta gripið í skonsurnar sem millimál yfir daginn og þá borða ég þær gjarna með smjöri og osti… eða bara osti, eða hnetusmjöri, sykurlausu sýrópi eða öðru sem er gott ofan á þetta ljúfmeti.

Eftirfarandi er uppskrift sem nærir mann á allan hátt en það besta er að börnin elska hana líka, – og hún er alveg laus við sykur og hveiti!

IMG_7655Til að fá þær sem mestar og bestar þarftu örlítinn undirbúning en hann er ekkert flókinn. Þú setur í skál:

1 bolla haframjöl
1/2 bolla chia fræ
1/4 bolla hörfræ
2 saxaðar döðlur
litla lúku af rúsínum
lúku af kókos

Svo hellirðu yfir þetta vanillu möndlumjólk (fæst t.d. í Krónunni) þar til það flæðir vel yfir þurrefnin. Út í þetta bætirðu hálfum stöppuðum banana, hrærir vel, setur lok yfir og inn í ísskáp.

Láttu standa í ísskápnum yfir nótt eða í nokkra klukkutíma (5-8).

Þegar grauturinn er klár lítur hann sirka svona út eins og á myndinni til hægri. Hlaupkenndur massi.

Nú bætirðu í þetta:

2-3 matskeiðar kókosolíu (brædd á vægum hita í potti eða við stofuhita)
10 dropa steviu eða vanillusteviu
1 tsk matarsóda
1 tsk kanil
2 egg
1 desilíter spelt
1 skammtur prótein (ég nota bragðlaust mysuprótein frá NOW og það er skammtaskeið í dósinni).
Mjólk eða möndlumjólk til að þynna (svipað þykkt og vöffludeig).

Hrærðu öllu vel saman með handþeytara eða sleif.

Því næst steikirðu deigið á pönnu við meðal hita þar til litlar bobblur byrja að myndast í deiginu, þá snýrðu skonsunni við með spaða.

Best er að gera 3-4 í senn og hafa þær ekki of stórar. Ég á sérstaka pönnukökupönnu sem býr til fjórar í senn. Það er þó alls ekki nauðsynlegt.

Sjálf geri ég yfirleitt mikið af þessum skonsum í einu af því það er allt borðað upp til agna ef ég geri ekki nóg. Meira að segja vinkonur 10 ára dóttur minnar mæta til okkar í sérlegar skonsuheimsóknir og sjálf gríp ég í þær yfir daginn og sendi barnið með í skólann.

Það má líka frysta þær og setja svo í brauðristina.

Þessar skonsur innihalda fullkomin kolvetni, góð prótein og svo eru þær hreint himneskar á bragðið. Fullkomnar fyrir þig sem ert í heilsuátaki, ræktinni eða bara sælkeri sem elskar bragðgóðan mat. Þú mátt líka setja bláber í þær, vanilluprótein, hnetusmjör eða annað sem þér finnst gott.

Prófaðu!