veggieburger

Ég hef ákveðið að vera aðeins duglegri að taka myndir af því sem ég elda og útbý hérna heima hjá mér og deila með ykkur Pjattrófum en í gegnum Instagram var skorað á mig að gefa uppskrift að þessum grænmetisborgara.

Screen Shot 2014-04-21 at 10.06.31Ég ætla ekki að vera með neina vitleysu og reyna að segja þér að ég hafi gert þetta allt frá grunni því svo er alls ekki. Upptekin kona með barn, kærasta, fulla vinnu, hund og pjatt hefur sjaldan tíma til að gera grænmetisborgara, borgarabrauð og kartöflurnar frá grunni en það breytir því ekki að auðvitað eldar maður af og til.

Þennan grænmetisborgara fékk ég hjá henni Sollu minni Eiríks úti í Hagkaup en ef þú vilt fara lengra og gera þinn eigin þá er það í sjálfu sér ekki mikið mál.

Minn háttur hefur verið sá að blanda saman grænmeti að eigin vali við dökk grjón, setja svo saman við þetta egg og spelt, hnoða og steikja. Alveg eins og með kjötborgara nema þú notar grjón, baunir eða bygg sem uppistöðu.

Cafe Sigrún er líka með gott úrval grænmetisborgara uppskrifta hér fyrir þær sem hafa tíma og þá er auðvitað málið að frysta því svona mat er gott að eiga á lager.

Hamborgarabrauðið er Lífskorn frá Myllunni og sætkartöflufrönskurnar komu líka úr frystinum í Hagkaup en þú getur einnig gert þær sjálf, ef þú hefur tíma – ég geri það nú oftast því þetta er ekki mikið mál og auðvitað hollara – HÉR ER UPPSKRIFT.

Mér finnst gott að hækka vel í ofninum í lok tímans því sætar kartöflur eru svo rakamiklar og þær verða stökkar ef ofninn er vel heitur þegar þú setur þær inn og hækkar svo smá í lokin.

Meðlætið með borgaranum er kokteilsósa gerð úr Hellmanns létt Mayo (bara lífræn free-range egg í því) og Sollu tómatsósu. Salat, fetaostur, 17% góðostur, ferskt salat, fersk basillauf, kokteiltómatar og rautt pestó. Þessu var svo skolað niður með einum laufléttum Gull Lite, en í einni dós eru færri en 100 he.

Viðstaddir matargestir (á aldrinum 9-50) stundu af gleði þegar borgarinn var snæddur, – þetta er fljótlegt, kostar færri hitaeiningar en venjulegur borgari og kroppurinn er kátur á eftir. Prófaðu!