Bókin Furðulegt háttalag hunds um nótt eftir Mark Haddon hefur fylgt mér frá því hún kom út í Bretlandi fyrir mörgum árum.

Ég hef bent mörgum á hana og hún hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég ákvað að lesa hana einu sinni enn og nú á íslensku þar sem verið er að setja upp leikritið í Borgarleikhúsinu og ég hlakka mikið til að sjá það.

Þetta er saga um Kristófer Boone, 15 ára strák með einhverfuröskun. Hann finnur dauðan hund nágranna síns og ákveður að hafa upp á morðingjanum en það getur verið dálítið erfitt þegar það eru skýr fyrirmæli að tala ekki við ókunnuga.  Bókin er skrifuð frá sjónarhóli Kristófers og hann talar við lesanda með því að skrifa niður allt sem gerist í leitinni. Hvernig hann bregst við og hvernig honum finnst aðrir bregðast við.

Fyrir mér opnaði þessi bók sýn inn í hugarheim einhverfra. Hvernig hræðslan við snertingu yfirtekur allt og hvernig köld skynsemi ræður frekar en tilfinningar. Góð útskýring kemur í veg fyrir allskonar vesen. Kristófer er mjög klár í stærðfræði þó hann sé eins og lítið barn á tilfinningasviðinu og ef hann kemst í vandræði þá vippar hann sér yfir í stærðfræðiheiminn og finnur huggandi formúlu.

Þetta er ótrúlega flott bók og hún er skemmtileg líka þó hún fjalli um viðkæmt mál. Það er hægt að hlæja þó maður fái jafnframt sting í foreldrahjartað yfir samskiptum hans við foreldra sína.

Þessi bók hefur fengið ótal verðlaun og það er ekki skrítið og leikritið hefur einnig hlotið fjölda verðlauna í Bretlandi.

Ef þig vantar krúttlega bók sem jafnframt opnar augu þín fyrir því hvernig hluti af samferðamönnum okkar upplifir heiminn,  þá er þetta klárlega bókin til að lesa. Þetta ætti í rauninni að vera skyldulesning fyrir alla.

Ég gef þessari bók fimm stjörnur.

(5 / 5)