timakista

Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason er ævintýri fyrir börn og fullorðna, –  barnaævintýri í fullorðinsheimi. Í Tímakistunni geta menn lifað að eilífu frystir í tíma. Spurningin er hinsvegar hvað gerist þegar menn koma aftur út? Hvenær er rétti tíminn og er þá öruggt að fólkið okkar sé til staðar?

Sagan er um borgríkið Pangeu þar sem Dímon hinn þrettándi ríkir ásamt Ráðfinni ráðgjafa sínum og Exel sem getur reiknað allt út á örskotsstundu. Dímon á fegurstu dóttur í heimi, Hrafntinnu sem hann elskar meira en allt annað. Hann vill að hún lifi bara hamingjustundir, engin óhamingja eða leiðindi fyrir Hrafntinnu hans. Hann grípur því tækifærið þegar það gefst og lokar Hrafntinnu í tímakistu. Þar sefur hún vært og kemur út á völdum dögum, þegar það er gott veður eða afmæli. Hún eldist ekki í kistunni en hvað gerist fyrir aðra sem lifa í veröldinni?

andrisnaer2

Tímakistan bendir á fánýti þess að bíða eftir að eitthvað annað og betra gerist heldur það sem við erum að gera í dag. Þegar dagurinn sem við bíðum eftir rennur loks upp erum við þá tilbúin að taka á móti honum eða erum við orðin of gömul og þreytt?

Þessi saga passar vel inn í tímann í dag þar sem komin er upp mikil umræða um að lifa í núinu. Ekki sitja og bíða eftir morgundeginum. Njóta samvista við ástvini í dag og kannski er bara ekki alltaf hægt að reikna allt út?

Ástin sem Dímon ber til Hrafntinnu er svo mikil að hann vill gefa henni allan heiminn en er það nóg? Börn leita ekki alltaf eftir efnislegum gæðum heldur vilja þau njóta samvista við foreldra sína og sá tími kemur ekki aftur. Þetta er þörf áminning í stress nútímans þar sem allir vinna og vinna til að kaupa meira og meira en afleiðingin er minni tími með þeim sem við elskum.

Hér er örstutt lýsing frá Andra Snæ sjálfum:

[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=67PkcMs54mI[/youtube]

Ég ætla að gefa henni fjórar stjörnur því eins og aðrar bækur Andra Snæs þá fær hún mann til að hugsa aðeins..

(4 / 5)