TOP

Uppskrift: Próteinríkar súkkulaðipönnukökur án sykurs!

IMG_6865

Það fyrsta sem ég hugaði í morgun var… Hvað ef ég gæti fengið mér ótrúlega próteinríkar pönnukökur sem eru samt geðveikt góðar?

Hugsunin þótti mér svo spennandi að ég velti mér fram úr fyrr en siðlegt þykir hjá pjöttuðum bóhemum… skrönglaðist beint inn í eldhús, opnaði skápana og tók fram hráefnin.

INNIHALD

  • 2 dl spelt
  • 1/2 tsk vanillu stevía (eða annað sætuefni t.d. hrásykur eða banani eða agavesýróp – OG ATH má líka sleppa því að gera sætt af því próteinið og Hámarkið inniheldur sætuefni).
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 dl súkkulaði Weetabix
  • 30 gr súkkulaðiprótein – Ég notaði 1 bréf af Ultra Loss Shake sem er jafnframt vítamínbætt
  • 1 og hálf ferna HÁMARK (ca. 4 dl) með kaffi og karamellubragði, nú eða súkkulaðibragði auðvitað
  • 2 msk matarolía (eða fljótandi kókosolía, ekki  nota ólívuolíu)
  • 1 egg

Byrjaði á að blanda saman þurrefnum… svona

IMG_6866

 

Svo Hámarki, eggi og olíu… Fá barnið til að hræra mjög vel. Kveiktu á eldavélinni og hafðu hana á meðal hita. Ekki of háum (stilli á 4 á minni ‘old school’ helluvél).

Screen Shot 2014-02-07 at 09.34.52

 

Steikja á pönnu. Ég er svo heppin að eiga litla pönnukökupönnu sem steikir 4 í einu en auðvitað geturðu notað hvaða pönnu sem er og notað bara litla ausu eða svo í hverja pönnsu.

Screen Shot 2014-02-07 at 09.38.13

 

Þegar svona loftbólur myndast í pönnukökunni er tímabært að snúa henni á hina hliðina… steiktu þá í 1-3 min og taktu af pönnunni. Best er að stafla pönnsunum upp svo þær haldi hitanum, ef þú ert að gera margar skaltu breiða álpappír yfir diskinn.

IMG_9403

 

Taraaa… klár í daginn með sykurlausar, ofur prótein og trefjaríkar SÚKKULAÐI pönnukökur! Ótrúlega góðar!!

Borðaðu þær með hnetusmjöri og sultu, sýrópi eða hverju sem þig lystir eða hentar þér og þínum lífstíl. Pönnukökurnar eru lágar í hitaeiningafjölda en meðlætið getur auðvitað hækkað það upp.

Líka hægt að frysta þær og setja í brauðristina á milli lota eða hafa með í nesti yfir daginn. Ef þú ert á LKL þá er bara að skipta speltinu út fyrir möndlumjöl, kókosmjöl eða annað sem þið notið.

Bon appetit!

Kveðja  – Margrét próteinrófa

 

 

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún hefur að mestu starfað við fjölmiðla frá tvítugsaldri og þá einna helst við ritstjórn og blaðamennsku, en einnig útvarp og sjónvarp. Hún flutti til London sautján ára og komst til manns í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði m.a. margmiðlun og myndlist. Margrét býr ásamt einkadóttur sinni á Seltjarnarnesi, elskar ferðalög, veitingahús, veislur og vini sína enda krabbi, með tungl í ljóni og rísandi vog.