1237040_10151885037844793_535188470_nBerglind Pétursdóttir er best þekkt sem GIF drottning Íslands en hún hefur nú um nokkurt skeið haldið úti The Berglind Festival á alnetinu sem við elskum öll.

Á blogginu birtir hún ekkert annað en hreyfimyndir og við þær setur hún allskonar góðar athugasemdir eða texta sem eru oft mjög fyndnar.

Mig langaði að vita meira um konuna sem felur sig bak við hreyfigiffin og sendi henni því spurningalista sem flestir sálfræðingar landsins eiga eftir að öfunda mig af. Eftir lesturinn vitum við nefninlega allt um Berglindi. Eða, þúst

Aldur, starf, börn, bóndi?

24 ára texta- og hugmyndasmiður á Íslensku auglýsingastofunni og sjálfstætt starfandi dansari og danshöfundur. Á einn son, Kára næstum 3 ára og einn mann Steinþór, næstum 30 ára, spurningahöfund í Gettu Betur.

Hvenær sástu þitt fyrsta moving gif og hvernig leið þér?

Ég held það hafi verið dansandi banani, örugglega í kringum aldamót. Það markaði ákveðin skil í mínu lífi.
(http://uncyclopedia.wikia.com/wiki/File:Dancing_banana.gif)

Berglindi finnst gaman að halda partý
Berglindi finnst gaman að halda partý og borða pinnamat

Hefurðu skrifað smásögu og ef svo er, um hvað var hún?

Ég skálda smásögur fyrir son minn allan daginn en það er eina leiðin til að fá hann til að hætta að tala í smá stund.
Þær sögur eru aðallega um Spiderman og Bósa Ljósár, dýrin í sveitinni og aðra avant-garde hluti.

Hversu pjöttuð ertu á skalanum 0-17?

Sko. Ég set ekki í mig rúllur en ég er samt ekkert með sorgarrendur undir nöglum. Ég er samt alveg oft með flækjur í hárinu og gat á sokkabuxunum og það er mylsna í sófanum heima, eftir mig en ég kenni syni mínum um það. Ég er kannski ekki nema svona 3 en ég vil halda því fram að ég sé svona 6. Ég versla bara snyrtivörur í MAC, hækkar það mig ekki alveg upp í 7?

734632_381296501968445_747453031_nHvað skoða margir síðuna þína á dag?

Ég er hætt að fylgjast með því, það er of stressandi. Í staðinn fer ég í jóga.

Hvort væri verra, að vera ekki með síma eða ekki með net?

Að vera ekki með net. Það er ekkert verra en að vera ekki með net. Það er bara ekki nett.

Lestu blöðin?

Já ég les Fréttablaðið á hverjum morgni og Moggann þegar ég fer í heimsókn til fullorðinna. Svo les ég stundum Krónublaðið með kærastanum mínum, en hann veit ekkert skemmtilegra en gott tilboð á folaldahakki.

Uppáhalds sjónvarpsefnið þitt?

Simpsons. House of Cards. Saturday Night Live. Girls. Ég var líka að byrja að horfa á Seinfeld seríurnar frá byrjun. Það er geeeeeegggjað stöff og allir í flottum blússum.

Fyndasta fólk í heimi?

DV kommentarar.

Skilaboð til lesenda Pjatt.is?

Slökum á, verum í stuði, verum góð við dýr, verum góð við börn, alltaf bíða í hálftíma með að svara tölvupósti ef maður er reiður og ekki drekka kampavín á fastandi maga.