TOP

Heilsa: Hingað og ekki lengra! Nú hreyfir Guðrún sig með Guðbjörgu!

ræktin

Já nú dregur til tíðinda… í vikunni byrjaði ég á nýju námskeiði hjá Guðbjörgu Finns pjattpistlahöfundi og eiganda G FIT heilsurækt í Garðabæ en námskeiðið heitir G FIT  lífstíll. Nú eiga stórir hlutir að gerast…

pizzaNú á að rækta líkamann og koma honum í ásættanlegt form. Lengi lengi hef ég hugsað um að drífa mig í ræktina en alltaf finn ég einhverjar afsakanir fyrir því að “komast” ekki: Það er svo mikið að gera í vinnunni, brjálað að gera með þessi blessuð börn sem ég á (þó þeir séu nú afbragðs englar báðir tveir) heimilið, maðurinn, vinirnir, tómstundirnar sem ég hef aldrei tíma fyrir og svona gæti ég talið endalaust upp því ég er snillingur í að koma mér undan líkamsrækt.

En svo náði aldurinn mér… já mikið langar mig að blóta núna en það er ekki mjög smart að blóta á prenti svo ég sleppi því (þú veist þó hvað ég meina).

Kílóin fóru að setjast á mig eins og óvelkomnir óvinir og núna hreinlega verð ég að standa upp og hreyfa á mér líkamann, sprikla eins og enginn sé morgundagurinn, teygja búkinn í allar áttir og svitna!

Ohh, þrátt fyrir að ég hafi vorkennt mér í mörg ár fyrir að “þurfa” að hreyfa mig þá get ég það ekki lengur, núna er þetta ekkert “verð að fara að gera eitthvað”, nei núna er staðan þannnig að ég verð að fara að gera eitthvað!

Ég valdi Guðbjörgu hjá G FIT heilsurækt vegna þess að ég hef prófað að fara á námskeið með henni meðan hún var þjálfari hjá Hreyfingu fyrir nokkuð mörgum árum. Hún er svo hress, eðlileg og þægileg að ég mætti í alla tímana hennar.

Mér leið einfaldlega vel í tímanum hjá henni og fannst ég geta talað við hana um alla mína erfiðleika varðandi hreyfingu.

Ég er ekki týpan sem get verið í hvaða hóp sem er því í raun finnst mér líkamsrækt einfaldlega ofur leiðinleg svo sú sem kennir líkamsræktina hefur mikið áhrifavald á það hvort ég held áfram eða ekki. En ég treysti Guðbjörgu því ég hef farið áður til hennar og veit að hún skilar sínu mjög vel, svo nú er það undir mér komið hvort það verði árangur eður ei.

Á meðan ætla ég að leyfa ykkur að fylgjast með, fylgjast með breytingunum og öllum þeim erfiðleikum sem munu mæta mér, en… ég vona líka, okei ég veit að ég mun líka enda á því að segja eitthvað jákvætt þegar námskeiðið klárast, því það er það sem stefnan er tekin á! Jákvætt þýðir einfaldlega betra líf, léttari og liðlegri líkami og lífstíll.

Svo núna er bara eitt eftir og það er you go girl! Droppa pizzunni og drífa sig í ræktina!

 

Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Hún bjó í Flórens á meðan náminu stóð og hreinlega elskar allt sem tengist Ítalíu! Matinn, menninguna og lífsstílinn. Guðrún hefur margra ára reynslu við að hanna íbúðir, veitingahús og hótel. Hennar helstu áhugamál eru hönnun, tíska, matargerð og gömul húsgögn með sál. Eins rekur hún Mio-design en þar er boðið upp á hönnun og/eða ráðgjöf fyrir heimili og eins hluti hannaða úr íslenskum efnum fyrir heimilið. Guðrún er sporðdreki og Tígur í Kínversku stjörnuspánni.