Screen Shot 2013-09-26 at 22.29.49

Ídýfur undir mexíkóskum áhrifum eru alltaf sérlega vinsælar, ekki síst meðal unga fólksins sem hreinlega elskar allt sem mexíkóskt er í matargerðinni. Falleg í skál þessi og enn betri í munni – steinliggur í partíinu eða fyrir kósíkvöldið.

 • 100 g guacamole
 • 1 dós nýrnabaunir, niðursoðnar
 • 1 lítill rauðlaukur, smátt saxaður
 • 150 g sýrður rjómi eða grísk jógúrt
 • 180 g salsasósa
 • 1 dl blaðlaukur eða vorlaukur, saxaður
 • handfylli ferskt kóríander
 • tortillaflögur

Útbúið guacamole samkvæmt uppskrift hér að neðan. Setjið í botninn á fallegri glerskál. Maukið síðan nýrnabaunirnar (fást líka maukaðar) og blandið saman við saxaðan rauðlauk. Dreifið því yfir guacamole. Setjið því næst sýrðan rjóma ofan á og salsasósu. Stráið blaðlauk og kóríander þar ofan á og berið fram með tortillaflögum.

Guacamole

 • 2 avókadó, vel þroskuð
 • ½ rauðlaukur, smátt saxaður (má nota annan lauk)
 • 1 grænt chillí, saxað örsmátt
 • 2-4 hvítlauksrif, marin (magnið fer eftir smekk)
 • 2 tómatar, fræ- og kjarnhreinsaðir, saxaðir smátt
 • ferskt kóríander, að smekk (má sleppa)
 • 3 msk. límónu- eða sítrónusafi
 • salt á hnífsoddi

Maukið avókadóið og blandið öðru hráefni saman við. Berið fram strax.

Njótið í góðra vina hópi á góðu föstudags eða laugardagskvöldi!