50 kg

Við sátum saman nokkar stelpur og vorum að ræða málin yfir góðu glasi af rauðu. Umræðuefnið var að sjálfsögðu karlmenn.

Nokkrar af okkur eru á lausu og hinum finnst að við eigum að gera eitthvað í því . En hvað? Enginn sérlega álitlegur þarna úti. Ég hef ekki séð nema örfáa sem ég hef áhuga á að fara á deit með til að sjá hvernig færi og hvort hann fengi “call back”.

50 kg4

Við vorum búnar að ræða hinar og þessar síðu sem hægt er að skrá sig á ef maður er einhleypur, verst bara hvað sumar af þeim eru lélegar, því miður. Þá fórum við að spá afhverju er ekki opnuð almennileg stefnumótasíða sem er bara fyrir íslendinga svona eins og þeir gera í henni Ameríku. Það gæti verið sniðugt og jafnvel vænt til gróða.

Frekar langt inní samræður okkar segir ein “Ég hef sögu að segja ykkur stelpur og hún er ekki falleg en ég vil að hver dæmi fyrir sig”

Áður en ég byrja á frásögninni þá vil ég taka það fram að hún er sæt stelpa, hress, alltaf brosandi, í frábærri vinnu og hefur allt til alls. Hún er mjög sjálfstæð og eins og hún kýs að kalla það þá er hún aðeins í mýkri kantinum sem hún ber mjög vel og gæti hvorki ég né þú sett nokkuð út á hana. Hún er alltaf fallega klædd og ber sig glæsilega, enda hávaxin og það er yfir henni einhver tign.

En aftur að frásögninni sem hún sagði okkur þetta kvöld.

Hún hafði fyrir nokkru síðan skráð sig inná stefnumótasíðu, setti hana upp á fullkominn máta með mynd og allt. Allar upplýsingar voru réttar, hæð, þyngd og þar fram eftir götunum. Viðbrögðin voru lítil. Þau voru samt alltaf einhver en ekki eins og hún hafði vonað.

Hún var nefnilega orðin leið á einverunni og langaði í vin, góðan vin sem hægt væri að gera allt mögulegt með. En nei, allt kom fyrir ekki. Leitin gekk ekki vel.

Hún fór líka oft út á lífið og úrvalið þar er bara ekki neitt. Það veit ég líka því ég er í sömu sporum með þetta að langa að eignast góðan vin. Hún þessi vinkona mín fór að hugsa, hvað er svona slæmt við mig að karlmenn líta ekki við mér tvisvar og mér er bara aldrei boðið út.

  • Ætli það sé kílóafjöldinn ?
  • Er ég  forljót?
  • Er ég andfúl?
  • Hvað er málið?

Svo hún ákvað að gerast prakkari og hérna kemur frásögnin af hennar prakkarastriki sem endaði reyndar með því að særa meira en að vera eitthvað til að flissa yfir.

Eitt kvöldið þegar henni leiddist að þá stofnaði hún “fake” prófíl á þessari stefnumótasíðu. Þar inn setti hún prófíl af rosa gellu, svaka sæt, grönn og hávaxin. Það leið ekki langur tími frá því hún ýtti á enter og póstar fóru að hrynja inn. Á örskömmum tíma var hún komin með 1200 hits og 90 pósta. Hún átti ekki til orð.

Hún vissi alveg að það gera allir einhverjar kröfur þegar verið er að leita að maka eða góðum vin/vinkonu en þessu átti hún ekki von á.

50 kg2

Er útlitsdýrkunin svona rosaleg? Það var sama manneskjan bak við báða prófila en bara með sitt hvora kílóatöluna.

Hún fékk rosa sting í hjartað yfir þessu. Hafði búið erlendis í nokkur ár og þá var þetta aldrei neitt sem hún þurfti að spá í. Feit eða mjó. Skipti ekki máli þar. Greinilega eru ekki allir eins grunnhyggnir og við sem búum á Íslandi.

Það má semsagt ekki vera aðeins yfir kjörþyngd þá er maður út af kortinu. Hvernig má það vera að gullfalleg ung kona nái sér ekki í karlmann afþví hún er ekki 50 kg og með gáfur á við simpansa? Erum við virkilega svona grunn, getur það verið ?

Skiptir innri maður ekki líka einhverju máli? Eða er karlmönnum sama þó þeir geti ekki átt í samræðum við þær sem þeir eru að hitta, deita eða enda með að giftast? Ef hún er með rétta kílóatölu, er þá allt í lagi?

Gáfur skipta greinilega engu máli. Það er á hreinu. Niðurstaðan er bara einföld.

FLESTIR KARLMENN HRÆÐAST SJÁLFSTÆÐAR OG STERKAR KONUR!