Guðrún (t.h.) með hugleiðsluvinkonum
Guðrún (t.h.) með hugleiðsluvinkonum

Guðrún Kristjánsdóttir, blaða -og nýlega búðarkona í Systrasamlaginu á Seltjarnarnesi er heilsudýrkandi mikill en hér svarar hún nokkrum laufléttum Heilsu spurningum Pjattsins.

1. Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?

Ég rækta vináttu, stúdera fólk og sinni líkama, list og huga jöfnum höndum. Ég er mikill talsmaður þess að fólk rækti andann ekki síður en líkamann. Það er vissulega hægt að gera á margan hátt. Ég mæli með gjörhygli (e. mindfullness) sem er frábær leið til þess. Það á uppruna sinn hjá munkum í Tíbet. Aðferðin snýst um að koma hestinum  (huganum) í girðingu en þá þarf maður líka að læra “hestahvísl”. Gjörhygli er mögnuð leið til þess og ef menn vilja endilega hafa vísindin á bak við sig, þá er þegar farið að kenna gjörhygli í virtum háskólum hér og þar. En ég kýs gömlu leiðina því mystíkin heillar mig líka.

Guðrún rekur Systrasamlagið við sundlaugina á Seltjarnarnesi

2. Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?

Núna, eða á meðan ég hef mikið að gera, reyni ég að komast í jóga einu sinni til tvisvar í viku, helst í einn hatha jógatíma og einn hotjóga. Þar fyrir utan hleyp ég, eða hjóla, einn og einn Neshring og svo trimma ég fram og til baka um Systrasamlagið alla daga.

3. Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?

Mér finnst auðvelt að sleppa mörgu, á t.d. auðvelt með að vera ein yfir lengri tíma og laus við allt prjál. Það er sennilega bóndakonan í mér. En svo er eins og extróvertinn í mér þurfi næringu og þá þarf ég að hafa allt og alla í kringum mig. En að þessu sögðu er tvennt sem ég gæti líklega ekki gefið upp á bátinn úr þessu. Það er góður morgunkaffi sem lyftir andanum og hugleiðslan sem lyftir andanum enn hærra. Þetta tvennt fylgir mér alltaf, hvort sem ég er bóndakonan eða ljónynjan.

Klassíkur morguverður

4. Hvað færðu þér í morgunmat?

Gjarnan einhvern góðan Systrasamlagsþeyting; grænan, gulan eða brúnan, og nýpressað lífrænt engiferstaup með, á milli þess sem ég fæ mér guðdómlegan chiagraut. Svo tek ég alltaf einhvern aukasnúning reglulega. Fæ mér sítrónu út í volgt vatn sem ég drekk á fastandi maga svo vikum skiptir en núna er ég með dellu fyrir fjallagrösum (sem byggja upp slímhúð magans) með dassi af engiferi út í. Ég er mjög dugleg að prófa eitthvað nýtt og hollt. Þannig að ég er ekki mjög fastheldin nema í stuttan tíma í einu. Allskyns vítamín og bætiefni, sem “rífast” um að fá að fara fyrst ofan í maga, eru líka alltaf hluti af lífi mínu.

5. En á milli mála?

Tja, það veltur á því hvort ég er dugleg að borða morgumat. En satt að segja er ég dauðfegin að vel gert lífrænt súkkulaði er í hópi þess allra hollasta sem til er og um leið hverfur samviskubitið, sem er ennþá hollara. Te sem bragðast eins og það ilmar og súkkulaði er mitt nart og einstaka girnilegur ávöxtur.

6. Geturðu gefið okkur eina góða og einfalda uppskrift að einhverju heilsusamlegu?

Ég er mjög ítölsk í hjarta mínu og er því mjög hrifin af vel gerðum pístsum, sem ég borða þó bara spari. En ef ég fæ mér, vil ég hafa þær góðar. Uppáhaldið mitt um þessar mundir er geitaosta-, brjómberja-, fennelpítsa sem ég se á hollari gerð af pítsabotni. Ég nota helst alltaf lífrænt hráefni. Það er bara svo milku bragðbetra.

Semsé pítsabotn að eigin vali, ég kýs gjarnan glútenlausan.

Sósa:

  • 1 dós tómapúrra
  • ½ dl eðal ólíuolía
  • 1 msk oregano,  helst ferskt
  • 2 hvítlauksrif

Blandið vel saman olífuolíu og tómatpúrru. Saxið óreganó og hvílauk og setjið út í.

Ofan á:

  • 1 fennel
  • geitaostur, bæði mjúkur og harður og mikið af honum
  • 1 askja fersk brómber

Fyrst set ég sósuna á og nota vel af henni, síðan þunnt skorinn fennelinn (hann er langfallegastur skorinn á þverveginn). Ofan á set ég svo geitaostinn og að lokum fersk brómber. Alla öskjuna. Bakið í sirka 15 til 20 mínútur, þar til botninn er farinn að sýna fallegan lit og osturinn er bráðinn. Brómberin halda sér heil en eru heit og góð. Ofan á þetta kýs ég að skvetta sterkri chiliólífuolíu.

Siðgæðisvottaði samfestingurinn
Siðgæðisvottaði samfestingurinn

7. Skiptir máli að vera töff í ræktinni?

Já og nei. Aðalmálið er að líða vel. En svo tekur maður eftir bæði þeim sem leggja sig sérstaklega fram við það að vera smart og öðrum sem eru afslappaðari gagnvart tískunni (sem er alveg jafn frábært). Ég kýs snotur og þægileg íþróttaföt en umfram allt heillast ég af fallegum og vel hönnuðum jógafötum og góðum efnum.

Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?

Já, ekki spurning. Það er Prancing Leopard sem er bæði jóga, pilates og dansfatnaður úr lífrænni tyrkenskri bómull. Ótrúlega smart og notalegur þægindafatnaður sem gerir líka mikið fyrir mann heima og í jafnvel í vinunni er maður afburðasmart í þessum jógafötum. Vel hugsuð og falleg jógafatalína og allt sem er á bakvið hana líka, t.d. kemur engin undir 18 ára vinnu við þessa bómull, hún er laus við eiturefni og sanngjörn í alla staði. Það er líklega rétt sem þeir hjá Prancing Leopard segja – umræðan um lífrænan fatnað í dag er um það bil á sama stað og umræðan um lífrænan mat var fyrir 10 árum. Meðvitundin eru stöðugt að aukast. Þetta er allt ástæðan fyrir því að okkur systrum langaði að selja Prancing Leopard í Systrasamlaginu.

8. Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.

Mér finnst Solla á Gló gera þetta ótrúlega vel. Því hún er bæði hugmyndarík, skýr, sönn og auðmjúk og alls engin predikari. Úthald, hugarfar og útlit hennar sýnir líka að þarna er sannarlega eftir einhverju að slægjast. Það eru reyndar nokkrar spennandi konur þarna úti sem hafa verið á kafi í þessum heilsusamlega lífsstíl í nokkra áratugi. Og þar á ég við lífsstíl þar sem ekki er eingöngu tekist á við líkamann heldur ekki síður andann. Sumar þessarra kvenna eru komnar vel á aldur og bera aldurinn undursamlega. Í dag eru þetta glæsilegustu konur landsins og endalausir viskubrunnar.

 

9. Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?

Lífrænn lífsstíll heillar mig mun meira enda er ég bóndakona í hjarta mínu. Er oft að spjalla við einkaþjálfaranna sem eru að “leka” því í mig að margt af þessu próteini sem er í boði sé alger “viðbjóður”. Þeir lauma því líka að mér að þeir séu farnir að segja fólki að stunda jóga meðfram lyftingunum, járnmanninum og öllu þessu, svo við erum kannski í sömu pælingunum, ég og einkaþjálfararnir.

10. Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?

Já, ég er alltaf með eitthvað á prjónunum. Nú langar mig nefnilega að fara að lyfta líka. Helst hjá hinum fræga Ingimundi sem þjálfar allar sterkustu og flottustu konur landsins, þ.e. Gróttukvennahópinn sem stundar olympískar lyftingar með stæl. Hver veit nema að ég skelli mér til hans í haust til að slípa mig aðeins meðfram jóganu. En eitt verður maður að hafa í huga þegar maður ætlar að reyna svona hressilega á sig. Það er að taka inn auka andoxunarefni. Annars getur maður farið að “ryðga”, því mikil hreyfing getur líka haft slæm áhrif ef maður gætir þess ekki að huga að hinum eyðandi streituvaldandi sindurefnum sem eru oxandi. Þar kemur jógað og hugleiðslan líka sterkt inn.