Mynd_1397745

Það eru fáar, ef nokkrar hátíðir, þessa verslunarmannahelgina sem bjóða upp á jafn krassandi klassadagskrá og hin svonefnda Edrúhátíð þeirra hjá SÁA.

Hvort sem þig langar að bjóða börnunum að prófa að sitja á mótórhjóli með leðurtöffara, fara í jóga og hugleiðslu, grilla eitthvað gómsætt, fá herðanudd, spila fótbolta, sigrast á meðvirkni, hlusta á fyrirlestur með Eddu Björgvins eða tjútta við Ylju og Daníel Ágúst þá er þetta allt og miklu, miklu meira í boði á Edrúhátíðinni á Laugalandi um helgina.

Þar er jafnframt spáð mikilli bongó blíðu svo ekki er ólíklegt að heilsusamlega sinnaðar fjölskyldur eigi eftir að bruna í bílalest út að Laugalandi, hvort sem þær iðka sporin 12 eða ekki.

Hátíðin er nefninlega svo fullkomin fyrir fjölskyldufólk því eins og einhver orðaði „Við myndum aldrei fara með börnin okkar niður í bæ seint á Laugardagskvöldi“ – og eru það orð að sönnu. Börn hafa ekkert að gera innan um óhóflega áfengisneyslu þá sem oft fylgir þessari helgi.

Dagskrá Edrúhátíðarinnar er svo viðamikil og flott að hún kemst varla fyrir hér á síðunni en við hvetjum þig til að skoða hana HÉR.

Aðgangseyrir 6000 kr fyrir alla helgina, dagpassar kosta 2500 kr og það er frítt inn fyrir 14 ára og yngri.

Einhverjar af okkur ætla að bruna þarna á morgun með krakkana og vonandi sjáum við bara sem flestar af ykkur lesendum. Ekki er verra að maður er að styrkja gott málefni í leiðinni!