b60506a6b11e9f160fe08ad57ae7fc5b

Flestir myndu ekki hafa salat í kvöldmatinn á tyllidögum, enda yfirlýstur heilsuréttur með tilheyrandi andvarpi.

Þetta salat er hins vegar svo gott að það er vel við hæfi að spara það fram á laugardagskvöld og njóta þess innilega – svo gott er það.

Fyrir 3-4

INNIHALD

Salatið

 • 1 poki af spínati
 • 1/2 gúrka skorin í litla bita
 • 1 pakki kokteiltómatar, skornir í tvennt
 • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 2 dl af kúskús
 • 4 marineraðar kjúklingabringur – steiktar eða grillaðar og skornar í bita

Handfylli af þurristuðum, ósöltuðum kasjúhnetum

Dressing

 • 1 og 1/2 dl af sítrónusafa
 • 1 dl ólívuolía
 • 1 dl tahini (t.d frá Himnesk Hollusta)
 • 2 og 1/2 msk. hunang
 • 3 hvítlauksgeirar, marðir
 • 1 tsk. salt
 • 1/2 tsk. svartur pipar

SV6795

AÐFERÐ

Salat

Grænmetið skorið og því blandað saman. Kjúklingur steiktur eða grillaður, skorinn í bita og bætt við. Kúskús eldað samkvæmt leiðbeiningum og sett út í (undirrituð bætir við klípu af smjöri og blandar við kúskúsið þegar það hefur dregið í sig allan vökvann). Öllu er síðan blandað vel saman.

Marinering fyrir kjúkling

Heldur frjálslega má fara í marineringunni. Gott er að blanda saman sítrónusafa, salti, pipar, örlítið af cayenne pipar, hvítlauk og einhverju góðu kjúklingakryddi.

Best er að láta kjúklinginn liggja í marineringu í a.m.k. 1 klst.

Dressing

Blandið öllum hráefnum saman og þeytið í blandara eða með töfrasprota. Bragðbætið síðan með salti og pipar. Hér er gott að prufa sig áfram með sítrónusafann og hunangið. Misjafnt er hvort fólk sækist eftir súrari útgáfu með meira af sítrónusafa, eða sætari útgáfu með auknu magni af hunangi. Hvoru tveggja er yndislega gott og passar vel við salatið.

Þurristið ósaltaðar kasjúhnetur og dreifið yfir salatið. Þetta salat er ómótstæðilega gott og er sniðugt að gera aukalega af dressingunni því borðgestir munu vafalaust vilja laumast í ábót.

Brakandi  kalt hvítvínsglas í samfloti við þetta geggjaða kjúklingasalat er jafnframt ávísun á góða kvöldstund.

Njótið vel!