6d10261e16f2b21a572aa479df471a04

Sumir réttir standast einfaldlega allar kröfur og væntingar. Þessi pasta réttur er bæði einfaldur að gera og fljótlegur, auðfáanleg hráefni og þar að auki ofsalega bragðgóður.

Gott er að gera stóran skammt af réttinum því hann er frábær sem nesti.

INNIHALD (fyrir 4)

500 gr. pasta af eigin vali, undirrituð notar yfirleitt tagliatelle

10 sneiðar af beikoni

1 krukka grænt pestó

Handfylli af ólívum, grænum eða svörtum

Fetaostur, eftir smekk. Einnig hægt að nota mozarella.

1 lítil smjörklípa

2 msk. sykurbaunir, skornar gróft

AÐFERÐ

Sjóðið pastað samkvæmt venju, látið vatnið renna af, setjið litla smjörklípu í og hrærið vel-látið svo pastað standa. Steikið beikonið á miðlungshita. Athugið að ekki er þörf að setja olíu eða slíkt á pönnuna, fitan í beikoninu sjálfu nægir. Þegar beikonið er tilbúið skal skera það í litla bita. Því næst er pestóinu hrært saman við pastað og í kjölfarið beikonbitunum. Að því loknu er olívunum bætt við, sykurbaunir skornar gróft og settar í og loks er fetaostinum dreift yfir. Bera má fram réttinn heitan sem kaldan.

HEILRÆÐI

Þar sem að mikil olía er í pestóinu og beikoninu er best að nota fetaost sem liggur í léttsöltuðu vatni, þ.e. ekki þann sem er í olíulög. Ef aðeins er til fetaostur í olíu er gott að láta olíuna renna af eða sigta hana úr.

Yndislega auðveldur réttur sem enga stund tekur að töfra fram og njóta með glasi af hvítvíni, í góðra vina hóp.