Díana prinsessa á víst að hafa verið hinn týpíski krabbi, umhyggjusöm og gestrisin fjölskyldumanneskja.

Krabbarnir okkar eiga afmæli frá 21. júní – 22. júlí. Ég hef verið lengi með þessa grein því það er erfitt að koma orðum að því hversu gott og fallegt merki krabbinn er.

Manngæska, öryggi, ríkidæmi, viðkvæmni og heimili- og fjölskylda á vel við þegar talað er um fólk í krabbamerkinu.

Krabbinn vill svo ólmur hjálpa öðrum að það jaðrar við þráhyggju.

Krabbinn er vinurinn sem þú getur hringt í um miðja nótt þegar þú vaknar í tilvistarkreppu eða getur ekki sofið fyrir kvíða jafnvel þó að þú hafir ekki heyrt í honum í langan tíma. Krabbinn er líka vinurinn sem lánar þér 50 þúsund kall til að brúa bilið í enda mánaðarins þó að hann gæti vel þurft á peningnum sjálfur að halda og eiginlega einu skiptin sem krabbinn getur orðið móðgaður út í þig er þegar þú hefur ekki samband við hann þegar eitthvað bjátar á.

Hin fræga krabbaskel

Það getur verið erfitt að komast inn fyrir krabbaskelina, þú skalt læra að meta það ef þú kemst á þann stað vegna þess að krabbavinur mun alltaf vera þér til taks alveg sama hvort þið talið saman daglega eða á nokkurra ára fresti. Þegar krabbi hefur hleypt þér inn í hjarta sitt muntu alltaf eiga þar pláss.

Krabbinn getur verið dálítið misskilinn af öðrum en það er þá aðallega af þeim sem hafa ekki raunverulega kynnst honum og munu líklegast aldrei fá færi á því.

Fjölskyldumanneskja

Krabbinn nýtur þess að vera heima hjá sér umkringdur vinum og fjölskyldu, þannig hleður hann batteríin. Á jólum, áramótum og öðrum fjölskylduhátíðum er krabbinn í essinu sínu (nú veit ég að þið ykkar sem þekkið vel til krabba brosið út í annað). Það þarf að hlúa að heimilinu; hafa fínt og bjóða í matarboð þar sem matur og drykkur er sko ekki af skornum skammti.

Fræðin segja að krabbi og fiskur tengist yfirnáttúrulegum böndum en að krabbinn þurfi að varast sjálfstortímingarhvöt fisksins .. kannski eitthvað til í því ..
Fræðin segja að krabbi og fiskur tengist yfirnáttúrulegum böndum en að krabbinn þurfi að varast sjálfstortímingarhvöt fisksins .. kannski eitthvað til í því ..

♥ÁSTIN ♥

Krabbinn er mjög rómantískur en ekki endilega væminn svo það sé tekið fram.

Kynlíf án tilfinninga gerir ekkert fyrir krabbann, hann þarf að vera miðpunktur elskhugans og þarf að geta treyst honum. Þá hefur krabbinn einstaklega gaman af  löngum og hægum forleik. Þegar krabbinn verður ástfanginn mun hann ekki eiga frumkvæðið og óttast mjög höfnun. Ástfanginn krabbi vill ást að eilífu.

Hér eru nokkur ráð til að næla í krabba …

 • Ekki gagnrýna hann, ekki einu sinni á góðlátlegan hátt, hann mun ekki höndla það.
 • Ekki reyna að stjórna honum, hann vill helst hafa stjórnina.
 • Láttu hann vita að þú kunnir að meta örlæti hans.
 • Legðu afmælisdaga fjölskyldunnar og vina á minnið OG AUÐVITAÐ HANS AFMÆLISDAG.
 • Vertu stundvís.
 • Farðu með honum í búðarráp.
 • Borðaðu með honum góðan mat með góðu víni.
 • Tjáðu þig um tilfinningar þínar til hans í smáatriðum.
 • Spurðu hvernig fjölskyldan hefur það og hafðu einlægan áhuga á að vita það.
 • Dans, kertaljós og súkkulaði.
 • Hrósaðu honum fyrir fallegt heimili hans.
 • Kúrðu með honum og spjallaðu við hann.
 • Búðu til góða og skemmtilega stemningu í þægilegu umhverfi.
 • Veittum honum öryggi.

Að lokum

Rétt eins og aðrir þá er krabbinn ekki fullkominn. Það sem er einna helst neikvætt í fari hans eru þessar óútreiknanlegu skapsveiflur, hann er líka gjarn á að vilja stjórna öðrum, getur verið tilfinningalega kæfandi og ofurviðkvæmur fyrir ímyndaðri lítilsvirðingu. Eins ætti krabbinn að hafa í huga að láta fólk vera sem vill ekki hjálp og vill fá að vera í friði, þrátt fyrir að krabbinn telji það skyldu sína að aðstoða.

PS. Það er rétt að taka fram að þegar stjörnumerki eru skoðuð þá er það ekki bara sólarmerkið (það merki sem tilheyrir afmælisdegi okkar) sem hefur áhrif á persónuleikann heldur líka önnur merki, sem dæmi þá er pistlahöfundur með sól í fiskum en á sama tíma rísandi bogmaður. Tvö ólík merki, vatn og eldur. Sumum finnst þeirra merki ekki vera lýsandi fyrir sína persónu. Ein af ástæðum þess er að við stjórnumst af mismunandi merkjum eftir því hvenær og hvar við fæddumst.

Lestu einnig: STJÖRNUSPEKI: Barn í krabbamerkinu þarf að láta faðma sig og hvetja og

Krabbinn – Hjartahlýi heimilislæknirinn

 FRÆGIR KRABBAR