hnerri3

Eru mannasiðir á veitingahúsum komnir úr tísku? Er í lagi að snýta sér, hósta úr sér lifur og lungum, ropa eða leysa vind á veitingahúsum?

Nú á dögunum var ég stödd á veitingahúsi, nokkuð fínu veitingahúsi verð ég að segja. Við hjónin höfðum pantað okkur humarsúpu í forrétt og steik í aðalrétt. Staðurinn var ansi þétt setinn og tveir ungir strákar settust við borðið við hliðina á okkar borði. Borðin voru mjög  nálægt hvort öðru eins og oft er á vinsælum og þéttsettnum stöðum.

hnerri1

Þegar við vorum að byrja á forréttinum, þessari líka fínu humarsúpu, tekur annar strákurinn upp Kleenex klút og snýtir sér hressilega. Hann notaði talsvert afl við að hreinsa úr nasaholunum sínum og setti svo bréfið í kuðli á borðsbrúnina við okkar borð.

Og þá er ekki öll sagan sögð…

Fimm mínútum seinna tók hann upp annað bréf og snýtti sér aftur (maðurinn var greinlilega einstaklega kvefaður). Það heyrðust allskyns sullhljóð á meðan maðurinn dundaði sér við losunina og á meðan urðum við hálf græn í framan með súpu diskinn fyrir framan okkur. Reyndum að tala hærra og hugsa um allt, allt, allt annað en það sem var að gerast á borðinu við hliðina á okkur.

Ekki skánaði ástandið á vininum þegar aðalrétturinn var á borð borinn. Þá fékk hann ægilegt hóstakast og hafði lítið fyrir því að halda fyrir munninn á sér á meðan. Hann hóstaði og ræskti sig fram og til baka. Hnerraði svo hátt og snjallt að horið frussaðist út úr nasavængjum hans (svona græn slumma sem slumpaðist út eins og græn sápukúla og hálfa leið inn aftur).hnerri

Ég get alveg sagt það að matarlistin var ekki mikil hjá okkur eftir að hafa hlustað, séð og fundið fyrir kvefi mannsins  svo ég tali nú ekki um bréfahrúguna sem stækkaði óðum.

Ég veit ekki um þig lesandi góður en ég var alin upp við að vera dönnuð við matarboð og sérstaklega í kringum gesti eða á veitingahúsum. Er fólki virkilega sama þótt annað fólk þurfi að hlusta á búkhljóðin og úrgangslosun þeirra á meðan það borðar? Finnst kannski óþarfi að taka tillit til annara eða eru venjulegir mannasiðir komnir úr tísku?

Kannski væri einfaldast að til væru reglur varðandi horlosun fólks á veitingahúsum. Svipaðar reglur og eru á mörgum veitingahúsum  erlendis varðandi klæðnað.

Ef þú klæðist ekki viðeigandi klæðnaði sem veitingahúsið krefst þá hefurðu ekkert þangað inn að gera. Ef þú skilur ekki venjulega mannasiði og kannt ekki að bera virðingu fyrir þeim sem eru í kringum þig – farðu þá á Burger King eða Bæjarins bestu, já eða enn betra, borðaðu bara heima hjá þér.

Mín skoðun: Ef þú ert veik/ur – haltu þig þá heima – hlífðu öðru fólki við sýklunum og horhljóðunum og leyfðu öðrum að gera sér dagamun án þess að verða fyrir ónæði af völdum sjúkdóma þinna.