mom1
Swingin sixties

Sem mömmustelpa þykir mér alltaf vænt um að fólk minnist á það að ég líkst móður minni. ,,Eins og snýtt út úr nös” gekk einhver svo langt að segja.

Það kemur heldur ekkert á óvart og ég sé það sjálf þegar ég skoða myndir af mömmu. Sami vangasvipurinn, stór augu og ljóst slétt hár. Ég er hávaxnari og örugglega fyrirferðarmeiri, mamma mín er öll heldur minni og dömulegri en í prófil erum við nokkurn veginn sama manneskjan.

Mér þykir vænt um að hafa fengið útlitið frá móður minni, ekki að pabbi minn sé ekki hinn huggulegasti maður. Sem barn sér maður  móður sína í hyllingum, sjálfri fannst mér mamma mín vera falleg, ljómandi álfadís með sítt ljóst hár sem náði niður á bak.

Svo reyndar klippti hún það og ég fór í fýlu (sem rann af mér fyrir tveimur árum). Því er það mér afar kært að nú, þegar ég er sjálf orðin fullorðin, hef ég erft andlitslag móður minnar.

Um daginn rakst ég á skemmtilega bók þar sem dætur hylla mæður sínar fyrir glæsileika; My mom the Style Icon.

Líklegast vex þessi barnslega aðdáun á mæðrum okkar aldrei alveg af manni. Mamma mín var sú fyrsta sem ég dáðist að fyrir stíl og útlit. Ég var vön að sitja inni í fataherberginu hennar og renna höndunum yfir flíkurnar, varlega samanbrotnar peysurnar og tignarlegar dragtirnar sem hengu í fataskápnum. Ég sneri upp og niður öllum varalitum og potaði í augnskuggana. Skemmtilegast fannst mér svo að fletta með henni tímaritum og diskútera hin ýmsu tískufyrirbrigði.

my mom
Bókin

Í bókinni eru nokkrar glæsilegar mæður teknar fyrir og dætur þeirra lýsa stílnum og hvaða tískulegar minningar þær eiga af mæðrum sínum. Lesturinn er skemmtilegur og lýsingarnar á því hvernig þær rokkuðu hvít leðurpils, eða marglitaðar mussur, lakk pinnahæla eða með kisugleraugu, eru frábærar. Ég mæli eindregið með bókinni sem finna má  í bókbúðum hér á landi en einnig á Amazon.

Skemmtileg gjöf til mömmu þinnar eða tengdamömmu, eða jafnvel fyrir nýbakaða móður. Hér má sjá nokkrar glæsilegar mæður í gegnum tíðina.

mom2
Hippaleg
mom3
Glæsileg á stóra daginn. Hárskrautið er dásamlegt
mom4
Þvílík greiðsla
mom5
Í sól og sumaryl